Íbúðaverð heldur áfram að hækka

Íbúðaverð heldur áfram að hækka.
Íbúðaverð heldur áfram að hækka. mbl.is

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 1,4% milli maí og júní. Fjölbýli hækkaði um 1,4% og sérbýli um 1,7%. 

Árshækkun mælist nú 16% og hefur ekki verið meiri síðan í október 2017 að því er fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. 

Hækkanir á íbúðaverði eru nú orðnar áþekkar því sem sást á árunum 2016 og 2017 og hefur spenna aukist nokkuð umfram það sem spár gerðu ráð fyrir. Hagfræðideild Landsbankans gaf út þjóðhags- og verðbólguspá í maí sl. þar sem því var spáð að íbúðaverð myndi hækka um 10,5% milli ára. Ólíklegt þykir að sú spá haldi miðað við þær hækkanir sem þegar hafa orðið.

Spáin gerði þó ráð fyrir að Seðlabankinn myndi beita þjóðhagsvarúðartækjum sínum til þess að slá á þá spennu sem nú ríkir, sem hann og gerði með ákvörðun sinni í lok júní um að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána úr 85% af virði fasteignar niður í 80%. Hagfræðideildin telur ólíklegt að sú aðgerð ein og sér dugi til þess að slá á þá eftirspurn sem nú virðist ríkja. 

Samkvæmt gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun seljast nú um 43% íbúða í sérbýli yfir því verði sem þær eru auglýstar á. Það er hæsta hlutfall sem hefur mælst á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi mælinga í janúar 2013. Hlutfallið mælist 37% í fjölbýli sem er einnig hæsta hlutfall sem hefur sést. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK