„Með því daprasta sem ég hef séð“

Halldór Jóhann Sigfússon var vonsvikinn í kvöld.
Halldór Jóhann Sigfússon var vonsvikinn í kvöld. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, var skiljanlega virkilega svekktur með frammistöðu síns liðs í kvöld, sem tapaði óvænt fyrir Gróttu á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta, 20:26.

„Ég er virkilega súr yfir þessu. Við erum búnir að fá á okkur tvö mörk eftir tíu mínútur og í framhaldinu – á einhvern óskiljanlegan hátt – missum við allt traust á milli okkar. Við förum að skjóta illa og tapa boltum og margir leikmenn eru bara ekki með, því miður. Ég tek það ekki af Gróttu, þeir voru mjög góðir í leiknum, voru skynsamir og agaðir. Við vorum aftur á móti ekki agaðir,“ sagði Halldór Jóhann í samtali við mbl.is eftir leik. Hann segir að baráttugleði Gróttumanna hafi ekki komið sér á óvart.

„Við vissum að þeir yrðu til í slaginn, ég var búinn að hamra á því að þeir eru lið sem mæta „all-in“ í alla leiki og það væri óþægilegt að spila á móti þeim og við þyrftum að vera vakandi. Við undirbjuggum okkur vel fyrir þennan leik en svo misstum við öryggið frá okkur og menn fara að efast um hlutina og ætla að fara að bjarga öllu og skora helst tvö mörk í hverri sókn og það fer bara með okkur,“ bætti Halldór Jóhann við.

Selfyssingar hafa nú tapað þremur leikjum í deildinni í röð og Halldór Jóhann segir óhætt að segja að liðið sé í krísu.

„Það má alveg kalla þetta smá krísu. Mér finnst það vera. Að tapa svona illa fyrir Gróttu á heimavelli með svona dapri spilamennsku, það finnst mér ekki vera gott. Það er stutt á milli næstu leikja og við þurfum fyrst og fremst að kúpla okkur aðeins frá þessu og að hver og einn líti í eigin barm. Þetta snýst um sjálfstraust. Það geislaði ekki af okkur í kvöld og þetta var með því daprasta sem ég hef séð, og við höfum gert síðan ég kom á Selfoss,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert