Hvít-Rússar skelltu Tékkum og Ísland á umspilssæti víst

Sara Björk Gunnarsdóttir sækir að markverði Hvíta-Rússlands í leik liðanna …
Sara Björk Gunnarsdóttir sækir að markverði Hvíta-Rússlands í leik liðanna í apríl síðastliðnum. Ljósmynd/Aleksandar Djorovic

Hvíta-Rússland gerði sér lítið fyrir og vann óvæntan og sterkan 2:1-sigur á Tékklandi í C-riðli undankeppni HM 2023, riðli Íslands, í kvöld.

Tékkland var fyrirfram talið mun sigurstranglegra fyrir leik kvöldsins enda í tvígang búið að ná jafntefli gegn ríkjandi Evrópumeisturum Hollands í riðlinum.

Viktoria Valyuk skeytti hins vegar ekkert um hvaða lið væri sigurstranglegra og kom Hvít-Rússum í 2:0-forystu eftir aðeins 19 mínútna leik.

Tereza Krejciriková minnkaði muninn eftir tæplega hálftíma leik og þar við sat.

Með sigrinum fór Hvíta-Rússland upp fyrir Tékkland og er nú í þriðja sæti C-riðils með 7 stig á meðan Tékkland er í fjórða sæti með 5 stig.

Ísland er sem fyrr á toppi riðilsins með 15 stig og Holland í öðru sæti með 14 stig.

Eftir fjóra daga heimsækir Hvíta-Rússland Holland í riðlinum og sigri Holland þar mun Ísland að minnsta kosti ná öðru sæti hans, umspilssæti fyrir HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Tveimur leikjum til viðbótar er lokið í undankeppni HM í kvöld.

Lettland vann nauman 1:0-sigur á Lúxemborg í D-riðli og Rúmenía vann nágranna sína í Moldóvu 4:0 í G-riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert