Áfram í haldi grunaður um nauðgun og stórfelld brot

Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 15. júní.
Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 15. júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem sakaður er um nauðgun, stórfellda líkamsárás og stórfellt brot í nánu sambandi á árunum 2019 til 2023.

Er honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 15. júní.

Í ákæru á hendur manninum er hann sagður hafa endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð eiginkonu sinnar með andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, hótunum og nauðung. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins eru sumir áverkanna, sem hann er sagður hafa valdið eiginkonu sinni, taldir lífshættulegir. Geta meint brot hans varðað allt að 16 ára fangelsi.

Í úrskurðinum segir að Landsréttur hafi áður komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi alvarleika háttsemi mannsins sé skilyrðum fullnægt til að hann sæti gæsluvarðhaldi.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 25. febrúar frá því að málið kom til kasta lögreglu.

19. maí höfðaði héraðssaksóknari sakamál á hendur manninum með útgáfu ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert