Ásókn í endurhæfingu í kjölfar Covid

Aukin aðsókn er í endurhæfingu í kjölfar veikinda af völdum …
Aukin aðsókn er í endurhæfingu í kjölfar veikinda af völdum Covid-19. Starfsemi Reykjalundar liggur niðri núna vegna sumarleyfa. Ljósmynd/Odd Stefan

Endurhæfingarmiðstöðin á Reykjalundi hefur tekið á móti einstaklingum sem glíma við eftirköst af Covid-19 frá því í október á síðasta ári. Hefur fjöldi fólks sóst eftir endurhæfingu í kjölfar veikinda af völdum veirunnar. Reykjalundur fór í þriggja vikna sumarleyfi á dögunum og mun starfsemin hefjast að nýju eftir verslunarmannahelgina.

Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir að tíminn geti skipt máli og oft batni fólki af sjálfu sér. Þess vegna eru þrír mánuðir látnir líða þangað til fólk er kallað inn. Þannig eru þeir síaðir út sem þurfa raunverulega á hjálpinni að halda. Í millitíðinni er fólki bent á að sækja sér aðstoð á heilsugæslustöðvum.

Óþol fyrir miklu álagi

Hópurinn sem kemur á Reykjalund er fjölbreyttur, á aldrinum 18 ára og eldri. Stefán segir að stærsti hópurinn sé á miðjum aldri. Langvinnu áhrifin sem fólk glímir við eru helst líkamleg þreyta og mæði, orkuleysi og andleg þreyta. Stefán bendir á að þetta séu mjög víðtæk vandamál og þau verði ekki leyst með áhlaupi.

Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.
Stefán Yngvason framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi. mbl.is/Árni Sæberg

„Nær allir hafa óþol fyrir miklu líkamlegu álagu og við mælum líkamlegt atgervi hvers og eins í upphafi með áreynsluprófum,“ segir Stefán. Hann bætir við að mikilvægt sé að skammta líkamlegt álag mjög stíft enda sé annars hætta á að fólk geti ekki tekið fullan þátt, fari það fram úr sér á fyrsta degi.

Á Reykjalundi er fólki kennt að takast á við heilaþoku, örmögnun eða kulnun. Til séu ýmis ráð eins og að kyrra hugann og nýta orkuna betur. Stefán segir að fólki sé þannig kennt að nota verkfæri sem það getur svo notað sjálft. „Það er mikið álag að komast ekki í vinnu og vera með einkenni sem er erftt að útskýra og sjást ekki utan á þér.“

Mikil byrði um ókomin ár

Það virðist vera erfiðara að losna við langtímaáhrif Covid-sjúkdómsins en langtímaáhrif annarra veirusýkinga. Þeir sem hafa útskrifast eru nú í eftirfylgd en ekki er gert ráð fyrir endurkomum. „Við stöndum í miðri á með þetta fólk,“ segir Stefán. Hann bendir á að menn hafi áhyggjur af því að langtímaáhrif veirunnar verði mikil byrði um ókomin ár.

„Það veit enginn, maður getur ekki fullyrt fyrir fram hvort fólk losni við þau yfirhöfuð.“ Inn í myndina þarf þó að taka að heilsufar fólks í grunninn er alla vega og það þarf að draga frá við mat á því hvernig fólk hefur það eftir Covid.

Ekki er enn vitað um áhrif bólusetninga á langvinn einkenni og því getur Stefán ekki fullyrt um það hvernig sjúkdómurinn leggst á bólusetta til lengri tíma.

„Í heildarmyndinni er þessi veira ólíkindatól. Langvinnu einkennin eru ekki endilega í réttu hlutfalli við hve veikur þú varðst,“ segir Stefán. Fólk geti því haft lítil veikindaeinkenni en svo fengið langvinn einkenni sem geri það óstarfhæft í framhaldinu.

Stefán telur að endurhæfingin á Reykjalundi komi að gagni.

„Við eigum samt eftir að mæla árangurinn og niðurstöður sem segja okkur hvað dugar fólki best.“ Reykjalundur er í samtali við Sjúktratryggingar núna enda er ekki hægt að ráðast í aukin verkefni nema með samningi við Sjúkratryggingar. „Það er tímafrekt en þetta er sú staða sem Reykjalundur og aðrar svipaðar stofnanir búa við.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert