Innlent

Eldinum í bílnum fylgdi heljarinnar sprenging

Árni Sæberg skrifar
Lögregla mætti á vettvang.
Lögregla mætti á vettvang. Flóki Larsen

Sendiferðabíll sem gjöreyðilagðist í bruna í Vesturbæ Reykjavíkur í nótt stóð í ljósum logum áður en slökkviliðsmenn náðu að hemja eldinn. Þá varð nokkuð öflug sprenging í bílnum.

Þetta má sjá á myndskeiðum sem Flóki Larsen, sem átti leið hjá, lét Vísi í té. Þau má sjá klippt saman í spilaranum hér að neðan.

Í morgun var greint frá því að laust eftir klukkan 03 í nótt hafi verið tilkynnt um eld í bifreið í Vesturbæ Reykjavíkur. Slökkvilið hafi ekki verið lengi að slökkva eldinn en bíllinn, sem var sagður glænýr, væri ónýtur.

Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að ekki sé vitað hvað olli brunanum að svo stöddu. Hann segist ekki búa yfir upplýsingum það hvers konar bíl um var að ræða, hvort hann væri knúinn rafmagni eða jarðefnaeldsneyti.

Þá segir hann að sprengingar, líkt og sú sem sést í myndskeiðinu hér að ofan, séu algengar í bílabrunum. Oftast séu það loftpúðar sem springa með nokkrum kraft og þeir séu víða í nútímabílum.

Þess vegna klæði slökkviliðsmenn sig ávallt í allan öryggisbúnað þegar bílabrunum er sinnt. Reynslan hafi sýnt að það borgi sig.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu eða myndir á ritstjorn@visir.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×