Ronaldo og Messi ekki meðal þriggja efstu

Robert Lewandowski og Manuel Neuer, samherjarnir hjá Bayern München, eru …
Robert Lewandowski og Manuel Neuer, samherjarnir hjá Bayern München, eru tveir þeirra þriggja sem eru útnefndir í karlaflokki. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur birt nöfn þeirra þriggja einstaklinga sem urðu í efstu sætum í kjörinu á knattspyrnumanni og knattspyrnukonu tímabilsins 2019-20, í árlegri kosningu UEFA í samvinnu við Samtök evrópskra íþróttafjölmiða, ESM.

Um tímamót er að ræða í kjörinu í karlaflokki því hvorki Lionel Messi né Cristiano Ronaldo eru í hópi þriggja efstu í kjörinu að þessu sinni.

Þeir þrír karlar sem eru í efstu sætunum, í stafrófsröð eftirnafna, eru Kevin De Bruyne, belgíski miðjumaðurinn hjá Manchester City, Robert Lewandowski, pólski framherjinn hjá Bayern München, og Manuel Neuer, þýski markvörðurinn hjá Bayern München.

Wendie Renard og samherjar í Lyon urðu Evrópumeistarar í sumar. …
Wendie Renard og samherjar í Lyon urðu Evrópumeistarar í sumar. Hún og Lucy Bronze eru í hópi þriggja efstu. AFP

Konurnar eru þær Lucy Bronze, enski bakvörðurinn hjá Manchester City sem varð Evrópumeistari með Lyon í sumar, danski framherjinn Pernille Harder hjá Wolfsburg og franski varnarmaðurinn Wendie Renard hjá Lyon.

Opinberað verður þann 1. október hverjir stóðu uppi sem sigurvegarar í kosningunni og hljóta nafnbótina knattspyrnumaður ársins og knattspyrnukona ársins í Evrópu. Það eru þjálfarar liða úr Meistaradeildum karla og kvenna ásamt íþróttafréttamönnum víðsvegar að úr Evrópu sem greiða atkvæði í kjörinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert