„Ég var þreyttur eftir öll fagnaðarlætin“

Erling Haaland fagnar einu marka sinna í kvöld.
Erling Haaland fagnar einu marka sinna í kvöld. AFP/Paul Ellis

„Þetta var stórt kvöld fyrir félagið,“ sagði Erling Haaland, framherji enska knattspyrnufélagsins Manchester City, í samtali við BT Sport eftir stórsigur City gegn RB Leipzig í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með 7:0-sigri City sem vann einvígið samanlagt 8:1 en Haaland skoraði fimm mörk í leiknum og jafnaði um leið markametið í keppninni yfir flest mörk skoruð í einum og sama leiknum.

„Ég er fyrst og fremst stoltur af því að spila í þessari keppni og að skora fimm mörk var frábært. Að vinna 7:0-sigur var enn þá betra.

Satt best að segja þá man ég lítið eftir mörkunum, ég var ekki að hugsa mikið. Það eina sem ég var að hugsa um var að koma boltanum í netið, fram hjá markmanninum,“ sagði Haaland.

Hann var svo beðinn um að velja sitt uppáhaldsmark í leiknum.

„Ég var svo þreyttur eftir öll fagnaðarlætin að ég man ekki nógu vel eftir þeim,“ bætti Norðmaðurinn kampakátur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert