Tveir evrópskir fjárfestar hafa fest kaup á breska fjarskiptafélaginu Truphone fyrir eitt pund, eða 177 krónur. Framtíð félagsins hefur verið í mikilli óvissu eftir að bresk stjórnvöld lögðu á viðskiptaþvinganir gegn Roman Abramovich, sem átti 23% hlut í Truphone, stuttlega eftir innrás Rússa í Úkraínu í byrjun síðasta árs. Financial Times greinir frá.

Fjárfestarnir Hakan Koç og Pyrros Koussios gengu frá kaupum á Truphone, sem er með höfuðstöðvar í London, í dag eftir langt samþykktarferli hjá breskum stjórnvöldum. Þeir fengu leyfi frá undirstofnun breska fjármálaráðuneytisins í dag.

Truphone, sem selur rafræn SIM kort sem m.a. Apple notar, var metið á 410 milljónir punda árið 2020, eða sem nemur nærri 73 milljörðum króna á gengi dagsins.

Abramovich og tveir rússneskir viðskiptafélagar hans, Alexander Abramov og Alexander Frolov, höfðu fjárfest fyrir meira en 300 milljónir punda, eða yfir 50 milljarða króna, í fjarskiptafélaginu á undanförnum árum.

Framtíð fyrirtækisins hefur verið í lausu lofti eftir að Abramovich, fyrrum eigandi knattspyrnufélagsins Chelsea, var beittur viðskiptaþvingunum í mars 2022. Í nóvember síðastliðnum var Abramov og Frolov, sem voru stærstu eigendur Truphone, bætt á lista breskra stjórn­valda yfir ein­stak­linga sem sæta skulu við­skipta­þving­un­um vegna tengsla við Vladímír Pútín Rússlandsforseta.

Truphone hefur skilað tapi fimmtán ár í röð, þar á meðal 16 milljóna punda tapi árið 2020. Auk eSIM korta býður Truphone fyrirtækjasamninga um öruggt netkerfi og til að komast hjá reikigjöldum.