Halla Thoroddsen, forstjóri Sóltúns heilbrigðisþjónustu, segir mikil tækifæri felast í nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Fjölga þurfi úrræðum og valkostum því kerfið nái varla að anna eftirspurninni í dag, sem er fyrirséð að muni einungis aukast að óbreyttu.

„Það er mikilvægt að fjármagn fylgi sjúklingi þannig að í velferðarsamfélaginu Íslandi geti allir valið sér þjónustuaðila, ekki aðeins þeir betur settu. Ríkið og sveitarfélögin geta alveg útvistað þessari þjónustu til annarra þjónustuaðila, það er gert í takmörkuðum mæli en mætti auka það til að létta á kerfinu,“ segir Halla.

Hún nefnir að víða á Norðurlöndunum sé það þannig að fólk geti valið þá þjónustu sem það þiggur heima hjá sér óháð því hvort opinber eða einkaaðili veiti þjónustuna. Aftur á móti sé það þannig hér á landi að ef fólk býr enn heima hjá sér og heilsunni fer að hraka þá fer það oft að þarfnast þjónustu heima fyrir. Til að fá aðstoð við til dæmis heimilisþrif eða félagslegt innlit þarf fólk að leita til sveitarfélagsins. Ef heilsu fólks hrakar og það þarfnast heimahjúkrunar þá þarf það að leita til heilsugæslunnar.  Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem rekur bæði heimaþjónustu og heimahjúkrun með samningi við ríkið.

„Sóltún Heima er úrræði sem býður bæði upp á heimahjúkrun og heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustan er því á hendi eins aðila sem hefur góða heildarsýn yfir þarfir skjólstæðingsins. Þessi þjónusta er ekki niðurgreidd af hinu opinbera og þarf fólk því að greiða fyrir hana úr eigin vasa. Það liggur í hlutarins eðli að fólk þarf því að hafa efni á þjónustunni og hafa þeir efnameiri því fleiri valkosti. Kannanir sýna að Íslendingar vilja ekki hafa velferðarkerfið þannig.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.