Áttum í erfiðleikum með að skora

Helena Rut Örvarsdóttir í leiknum í kvöld.
Helena Rut Örvarsdóttir í leiknum í kvöld. Eggert Jóhannesson

Stjarnan er komin í sumarfrí eftir tap gegn Haukum í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handbolta í kvöld. Helena Rut Örvarsdóttir átti þó stórleik fyrir Stjörnuna og skoraði 11 mörk en það dugði ekki til.

Spurð út í leikinn í kvöld sagði Helena í samtali við mbl.is:

„Við áttum í erfiðleikum með að skora en við spiluðum mjög góða vörn og áttum frábæra markvörslu sem vantaði í síðasta leik.

En það er svekkjandi að ná ekki að refsa þeim með hraðaupphlaupum eftir allar þessar góðu varnir í kvöld.“

Þú skorar 11 mörk í dag og Embla sjö mörk. Hefði ekki þurft meira framlag frá öðrum leikmönnum til að ná fram úrslitum í kvöld?

„Jú kannski en svo má þá kannski líka horfa til okkar Emblu að ná að dreifa boltanum betur inn á línu og í horn. Við þurfum bara að skoða það fyrir næsta tímabil en jú það hefði þurft meiri dreifingu í þetta allt hjá okkur,“ sagði hún.

Tímabilinu er lokið hjá Stjörnunni og Patrekur Jóhannesson tekur við liðinu á næsta tímabili. Hvað með Helenu Rut, verður hún áfram í Stjörnunni?

„Eins og staðan er í dag þá er ég enn þá í Stjörnunni og er ekkert að fara neitt annað eins og staðan er núna. Það á margt eftir að koma í ljós og ég veit í raun lítið um framhaldið umfram það.“

Er Stjarnan farin að horfa til næsta tímabils?

„Það eru spennandi tímar fram undan hjá Stjörnunni. Við erum með frábæra stjórn á bak við okkur og það eru fullt af ungum leikmönnum sem eru að koma upp. Það verður spennandi að fá Patrek sem þjálfara og okkur hlakkar bara til næsta tímabils.

Þetta tímabil er búið að vera mjög upp og niður og við ætluðum okkur klárlega meira á þessu tímabili en Stjarnan á fullt inni fyrir næsta tímabil,“ sagði Helena að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert