Lágum í skotgröfunum en stóðum það samt af okkur

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við lögðum í grunninn upp að eiga við stöðuna maður á móti manni og reyna að vera eins framarlega og við gætum en auðvitað er það ógeðslega erfitt gegn svona liði eins og Víkingi, enda komu augnablik þegar við bara lágum í skotgröfunum. 

Við stóðum það samt af okkur að mestu leyti en mestu skipti að við mættum þeim bara,“ sagði fyrirliði HK, Leifur Andri Leifsson, sem stýrði liði sínu til 3:1-sigurs á Víkingum þegar liðin mættust í 5. umferð efstu deildar karla í fótbolta í Kórnum í kvöld.

„Við höfum brennt okkur á að eiga góða fyrri hálfleika í sumar en koma svo í seinni hálfleikinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut.  Við höfum engu að tapa núna, ákváðum að koma bara með okkar leikskipulag og stíga aðeins á þá enda verður mjög erfitt ef þú ætlar að falla aftur gegn svona liði  því þeirra leikmenn eru hrikalega snöggir og sterkir.“

Fyrirliðinn telur að sigurinn komi liðinu í gang og nú verði að hætta að hlusta á hvað öðrum finnst. 

„Ég held það sé alveg pottþétt að þessi sigur komi okkur í gang en við þurfum að vera svona baráttuglaðir í öllum leikjum, verðum að spila svona í hverjum einasta leik.  Megum ekki fara of hátt við þennan sigur, eigum KR í næsta leik og þurfum að lenda. Nú verðum við bara að safna eins mörgum stigum og við getum. 

Þó þetta hafi gengið brösuglega í byrjun móts þá líður manni eins og það hafi samt verið stígandi í þessu hjá okkur og við verðum nú að hætta að hlusta á einhverja utanaðkomandi og einbeita okkur að okkur sjálfum og þá uppskerum við eins og við viljum,“ bætti Leifur Andri við.

Tíminn rosalega lengi að líða

Atli Þór Jónasson skoraði fyrsta mark HK og hélt varnarmönnum Víkinga við efnið. „Við ætluðum fyrst og fremst bara að vinna leikinn því það er aldrei erfitt að skerpa á sér gegn stóru liðunum og geggjað að vinna þau. Ég segi bara velkominn í Kórinn, það getur verið erfitt að mæta þangað,“ sagði Atli Þór eftir 3:1-sigur á Víkingum en fannst tíminn fulllengi að líða.  

„Við spiluðum með fimm í vörninni þegar við vörðumst og síðan fjóra á miðjunni þegar við sóttum, það var planið en ég fylgdist ekkert mikið með því, vildi bara vinna leikinn. Mér fannst tíminn voru rosalega lengi að líða þarna í lokin en það var geggjað að vinna og nauðsynlegt því nú byrjar mótið, þetta var það sem við þurftum og nú er bara áfram gakk,“  sagði kappinn brattur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert