Birtu minningargreinar um tugi lifandi fólks

Elísabet Englandsdrottning er 94 ára og í fullu fjöri.
Elísabet Englandsdrottning er 94 ára og í fullu fjöri. AFP

Útvarpsstöðin Radio France International hefur beðist afsökunar á að hafa fyrir slysni birt á heimasíðu sinni minningargreinar um tugi fyrirmenna, sem öll eru enn á lífi.

Meðal þeirra sem fengu ótímabæra minningargrein sína birta voru Elísabet Englandsdrottning, Clint Eastwood leikari, knattspyrnumaðurinn Pele og Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.

Flestir stærri miðlar skrifa minningargreinar um frægt fólk á efri árum meðan það er enn á lífi svo birta megi rakleitt um leið og viðkomandi fellur frá. Fréttirnar höfðu verið vistaðar í tölvukerfi Radio France International, en mistökin urðu þegar verið var að skipta út tölvukerfi fjölmiðilsins.

Í yfirlýsingu frá fjölmiðlinum eru umræddir beðnir afsökunar, sem og lesendur sem treysta miðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert