Stórsigur Vals – Grindavík vann meistarana

Kiana Johnson á fleygiferð í Dalhúsum í kvöld.
Kiana Johnson á fleygiferð í Dalhúsum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kiana Johnson átti stórleik fyrir Val þegar liðið vann stórsigur gegn Fjölni, 102:71, í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Dalhúsum í Grafarvogi í 27. umferð deildarinnar í kvöld.

Johnson skoraði 23 stig, tók fimm fráköst og gaf tíu stoðsendingar en Valskonur voru miklu sterkari aðilinn í leiknum strax frá fyrstu mínútu og leiddu með 20 stigum í hálfleik, 51:31.

Valskonur juku svo forskot sitt enn þá frekar í þriðja leikhluta í 78:46 og Fjölniskonur voru aldrei líklegar til þess að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Simone Costa skoraði 23 stig fyrir Val en Brittany Dinkins var stigahæst hjá Fjölni með 22 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar.

Valur er með 44 stig í öðru sæti deildarinnar en Fjölnir er í því sjötta með 16 stig.

Elma Dautovic var stigahæst Grindvíkinga.
Elma Dautovic var stigahæst Grindvíkinga. mbl.is/Árni Sæberg

Tvöföld tvenna í Grindavík

Grindavík gerði sér svo lítið fyrir og vann sex stiga sigur gegn deildarmeisturum Keflavíkur, 63:57, í HS Orku-höllinni í Grindavík.

Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn og var staðan 30:24, Grindavík í vil, í hálfleik. Grindavík leiddi með níu stigum að þriðja leikhluta loknum og þann mun tókst Keflvíkingum ekki að vinna upp í fjórða leikhluta.

Elma Dautovic skoraði 13 stig fyrir Grindavík, tók þrettán fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Daniela Wallen var stigahæst hjá Keflavík með 15 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.

Keflavík tryggði sér deildarmeistaratitilinn í síðustu umferð en liðið er með 46 stig í efsta sætinu á meðan Grindavík er í því fimmta með 22 stig og á ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka