Umfjöllun: Brasilía - Ís­land 37-41 | Eftirminnilegur viðsnúningur í 78 marka leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk.
Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta sigraði Brasilíu, 37-41, í lokaleik sínum á HM í Svíþjóð og Póllandi í dag. Brassar voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 22-18, en Íslendingar sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleik sem þeir unnu, 23-15.

Bjarki Már í leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk fyrir íslenska liðið og Kristján Örn Kristjánsson átta. Sigvaldi Guðjónsson gerði sex mörk, öll í seinni hálfleik. 

Janus Daði Smárason og Gísli Þorgeir Kristjánsson skoruðu fimm mörk hvor. Janus kveikti í íslenska liðinu með góðri varnarframmistöðu í seinni hálfleik og gaf auk þess sjö stoðsendingar. Gísli stjórnaði sóknarleiknum af snilld en auk markanna fimm gaf hann níu stoðsendingar.

Skotnýting íslenska liðsins var 77 prósent og það tapaði boltanum bara sjö sinnum í leiknum. Vörnin var hræðileg í fyrri hálfleik en skárri í þeim seinni. Viktor Gísli Hallgrímsson lék megnið af leiknum og varði sjö skot (21 prósent). Björgvin Páll Gústavsson varði tvö skot (fimmtán prósent).

Viktor Gísli í leik dagsins.Vísir/Vilhelm

Íslenska liðið gerði vel í að klára lokaleik sinn á mótinu með sigri eftir slakan fyrri hálfleik. Niðurstaðan á HM er hins vegar vonbrigði og síðasti stundarfjórðungurinn gegn Ungverjalandi verður lengi grátinn. Þar köstuðu Íslendingar frá sér sæti í átta liða úrslitum og þar með sæti líklegast í forkeppni Ólympíuleikanna 2024.

Slen

Guðmundur í leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Eftir sigur Ungverjalands á Grænhöfðaeyjum fyrr í dag var ljóst að Ísland ætti ekki lengur möguleika á að komast í átta liða úrslit. Það var því að litlu að keppa fyrir íslenska liðið og frammistaðan framan af leik bar þess keim.

Frammistaða íslensku varnarinnar í fyrri hálfleik var agaleg. Brassar tættu varnarlíki Íslands í sig hvað eftir annað og skoruðu alls 22 mörk í fyrri hálfleik og voru með 79 prósent skotnýtingu. Ísland skoraði aftur á móti átján mörk og var með 72 prósent skotnýtingu en það taldi lítið því vörnin var glötuð. Engin tók frumkvæði, enginn tók ábyrgð og enginn gat neitt.

Allt opið

Brassar byrjuðu leikinn betur gegn steinsofandi Íslendingum. Þeir skoruðu fyrsta markið, komust í 4-1 og leiddu allan fyrri hálfleikinn. Það var sama hvaða Brassi réðist á íslensku vörnina, hann átti greiða leið í gegn. Vörnin hjálpaði markvörðunum ekki neitt og þeir gerðu ekkert aukalega. Samtals vörðu Viktor Gísli og Björgvin Páll þrjú skot í fyrri hálfleik, eða tólf prósent þeirra skota sem þeir fengu á sig.

Björgvin Páll í leik kvöldsins.Vísir/Vilhelm

Íslenska sóknin var að mestu góð. Of mörg dauðafæri fóru reyndar í súginn og töpuðu boltarnir voru nokkrir heldur klaufalegir en Ísland skoraði samt átján mörk. En það dugði skammt því Brasilía skoraði nánast í hverri einustu sókn.

Brassar leiddu jafnan með 3-4 mörkum og þegar liðin gengu til búningherbergja var staðan 22-18, þeim gulu og bláu í vil. Ótrúlegar tölur.

Petrus-áhrifin

Íslendingar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti, Janus Daði gaf tóninn í vörninni og Sigvaldi átti frábæra innkomu í sóknina. Ísland skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum seinni hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 23-22.

Sigvaldi Björn átti góða innkomu.Vísir/Vilhelm

Brasilía steig þá aftur á bensíngjöfina, skoruðu fjögur mörk gegn einu og komust í 27-23. Thiagus Petrus, fyrirliði brasilíska liðsins, skoraði 27. markið en meiddist við það. Það var íslenska liðinu til happs því brasilíska vörnin hélt engu í seinni hálfleik.

Brassar komust í 30-27 en Íslendingar svöruðu með 5-2 kafla og jöfnuðu í 32-32. Það var í fyrsta sinn frá því í stöðunni 1-1 sem það var jafnt.

Strákarnir fagna.Vísir/Vilhelm

Frábær lokakafli

Gísli Þorgeir kom Íslandi svo yfir í fyrsta sinn, 34-35, þegar sex mínútur voru eftir. Kristján Örn og Bjarki Már bættu tveimur mörkum við. Íslendingar höfðu þá skorað fjögur mörk í röð.

Íslendingar héldu svo vel á spilunum á lokakaflanum. Sóknin var frábær í öruggum höndum Gísla og mörkunum rigndi inn. Bjarki Már skoraði síðasta mark leiksins í þann mund sem leiktíminn rann út. Það var níunda mark hans og 41. mark íslenska liðsins. Niðurstaðan fjögurra marka sigur, 37-41, í 78 marka rússíbanaleik.

Strákarnir fagna sigrinum.Vísir/Vilhelm

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira