New York komst áfram – Milwaukee úr leik

Jalen Brunson eftir sigurinn í nótt.
Jalen Brunson eftir sigurinn í nótt. AFP/Tim Nwachukwu

Jalen Brunson átti sannkallaðan stórleik þegar New York Knicks vann sigur á Philadelphia 76'ers, 118:115, í sjötta leik liðanna í átta liða úrslitum austurdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta vestanhafs í nótt.

Brunson var algjörlega magnaður í leiknum í nótt en hann skoraði 41 stig ásamt því að gefa 12 stoðsendingar. Næstur Donte DiVicenco en hann skoraði 23 stig. Hjá Philadelphia var Joel Embiid atkvæðamestur með 39 stig og 13 fráköst.

Með sigrinum tryggði Knicks sér því sigur í einvíginu, 4:2, og er því komið áfram í undanúrslit austurdeildar.

Þá lagði Indiana Pacers meistarana frá 2021, Milwaukee Bucks, 120:98. Sigurinn þýðir það að Indiana er komið í undanúrslit austurdeildar líkt og New York en Milwaukee er úr leik.

Stigahæstu menn Indiana í leiknum komu báðir af varamannabekknum, Obi Toppin með 21 stig og T.J. McConnell með 20 stig. Hjá Milwaukee var Giannis Antetokounmpo sem fyrr frá vegna meiðsla en Damian Lillard var stigahæstur í nótt með 28 stig.

New York og Indiana eru því bæði komin í undanúrslit austurdeildarinnar og er ljóst að þau munu mætast þar. Í hinum einvígi undanúrslitanna mun Boston mæta annað hvort Cleveland Cavaliers eða Orlando Magic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert