Naumur sigur Bayern – Haaland skoraði í endurkomunni

Leroy Sané fagnar sigurmarki sínu.
Leroy Sané fagnar sigurmarki sínu. AFP

Bayern München er áfram með eins stigs forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir nauman 1:0-sigur á Arminia Bielefeld á heimavelli í kvöld.

Leroy Sané skoraði sigurmarkið á 71. mínútu eftir stoðsendingu frá Thomas Müller. Sigurinn var kærkominn fyrir Bayern sem tapaði óvænt fyrir Augsburg í síðustu umferð. Þýskalandsmeistararnir eru með 31 stig eftir 13 leiki.

Dortmund kemur fast á hæla Bayern með 30 stig eftir 3:1-útisigur á Wolfsburg. Wout Weghorst kom Wolfsburg yfir strax á 2. mínútu en Emre Can jafnaði úr víti og var staðan í hálfleik 1:1.

Dortmund var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Donyell Malen kom liðinu yfir á 55. mínútu. Norski markahrókurinn Erling Braut Haaland kom inn á sem varamaður á 73. mínútu og sjö mínútum síðar gulltryggði hann tveggja marka sigur.

Haaland var að leika sinn fyrsta leik í rúman mánuð en hann hefur verið frá keppni vegna meiðsla.

Erling Braut Haaland sneri aftur með látum.
Erling Braut Haaland sneri aftur með látum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka