Reglubundið eftirlit með fólki í sóttkví

Lögreglan fylgist með fólki í sóttkví.
Lögreglan fylgist með fólki í sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enn er eftirlit með fólki sem á að vera í sóttkví, líkt og verið hefur frá annari bylgju faraldursins, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns. Lögreglan athugar hvort viss hópur fólks sé í sóttkví, samkvæmt listum sem henni berast daglega frá almannavörnum.

„Almannavarnadeildin sendir inn nöfn þeirra sem eiga að vera í sóttkví, handahófskennt. Það koma nokkur nöfn á sólarhring sem við skoðum, en þetta er með þeim formerkjum að fólk í sóttkví er ekki í einangrun og getur gert ýmislegt,“ segir hann og bætir við að ekki sé refsivert að fara í bíltúr.

Lögreglan hefur einnig sinnt reglubundnu eftirliti með veitingahúsum og fylgist með hvort fjarlægðartakmörkum sé fylgt og hvort smitvörnum sé ábótavant.

„Við höfum ekki verið að spyrja fólk hvort það deili heimili eða hvort það sé í sóttkví,“ segir Ásgeir en bendir á að rekstraraðilar hafi sjálfir séð um slíkt og dæmi séu um að gestum sé vísað út, séu þeir grunaðir um að fylgja ekki sóttvarnarreglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert