Spyr um heróín á Íslandi

Karl Gauti Hjaltason
Karl Gauti Hjaltason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrir skömmu bárust fregnir af því að vart hefði orðið við heróínneyslu á Íslandi. Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, lagði fram fyrirspurn á Alþingi þar sem hann leitar svara við því hvort fíkniefnið sé að ryðja sér til rúms  hér á landi. 

Sagt var frá því í fréttatíma Stöðvar 2 hinn 12. október síðastliðinn að heróínneysla hefði færst í vöxt í faraldrinum. Er það hvatinn að fyrirspurn Karls Gauta. Er hún í tveimur liðum. 

1. Hversu mikið heróín hefur verið lagt hald á hér á landi árlega frá árinu 2010 þar til nú?
2. Hversu mörg mál var um að ræða ár hvert og hversu mikið var lagt hald á við landamæri?

Bætast við afbrot í flóruna 

„Maður vill fyrir forvitni sakir vita hvort þetta sé raunverulega komið hingað. Því ég veit það að einungis eru einstaka mál þar sem heróín hefur fundist hér á landi undanfarna áratugi. Okkur hefur verið hrósað fyrir það. Þetta er í öllum stórborgum nágrannalandanna. Þar eru langt leiddir fíklar mikið í heróíni. Þetta er mjög hættulegt efni og allt öðruvísi en önnur  því fíklarnir verða bókstaflega líkamlega háðir þessu efni og þá bætast við alls konar afbrot í afbrotaflóruna,“ segir Karl.

Hann segist hafa áhyggjur af þróun mála. „Það er mikilvægt að fá það fram hvar þetta er. Hvort þetta sé t.d. í Reykjavík eða á landamærunum við Keflavík,“ segir Karl.

Heróínfíkn hefur leikið samfélög og einstaklinga grátt um allan heim.
Heróínfíkn hefur leikið samfélög og einstaklinga grátt um allan heim.

„Menn hafa hrósað happi“  

Hann segist ekki hafa skýringu á því frekar en nokkur annar hvers vegna efnið hafi ekki náð fótfestu hér á landi. „Við erum búin að vera svo heppin í áratugi að þetta efni hefur ekki komið hingað. Menn hafa hrósað happi því þetta efni hefur leikið fólk afar illa. Þess vegna tel ég mikilvægt að fá upplýsingar um það hvort lögregla hafi orðið vör við þetta. Fyrirspurnin er lögð fram svo hægt sé að reyna að taka á málinu í tíma áður en þetta verður viðvarandi vandamál,“ segir Karl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert