Innlent

Óskar eftir ná­kvæmum upp­lýsingum um hvaða byssur voru keyptar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Arndís Anna hefur óskað eftir nánari upplýsingum um vopnakaup lögreglunnar vegna leiðtogafundarins í Hörpu.
Arndís Anna hefur óskað eftir nánari upplýsingum um vopnakaup lögreglunnar vegna leiðtogafundarins í Hörpu. Vísir/Arnar

Þing­maður Pírata hefur óskað eftir ná­kvæmum upp­lýsingum um hvaða vopn voru keypt vegna leið­toga­fundarins í Hörpu, hvers vegna þau voru keypt og að fengnu mati hvers. Þing­maðurinn segir ekki hægt að veita lög­reglu meira vald án að­komu þjóðarinnar.

Arn­dís Anna Kristínar­dóttir Gunnars­dóttir, þing­maður Pírata, segir í að­sendri grein á Vísi það á­hyggju­efni að fylgjast með því hvernig dóms­mála­ráð­herra hafi sýnt því mun meiri á­huga að auka vopna­burð og vald­heimildir lög­reglunnar en að styðja betur við hana. Til­efnið eru um­mæli Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra, í sam­tali við Stöð 2 þar sem hann sagði Arn­dísi hafa lítinn skilning á öryggis­sjónar­miðum.

Vald­mörkin verði að vera skýr

Arn­dís segir í grein sinni að lýð­ræði sé ekki sjálf­sagt og að því verði ekki við­haldið af sjálfu sér. Góðar á­stæður séu fyrir því að lög­reglu­valdi séu sett skýr mörk í lýð­ræðis­ríkjum.

„Vopn­væðing og vald­heimildir lög­reglunnar eru ekki einka­mál hennar. Það er með öllu ó­við­eig­andi að stakur við­burður sem krefst öryggis­gæslu á hernaðar­legum skala, sé notaður sem af­sökun fyrir því að taka U-beygju í mál­efnum lög­reglu til lang­frama, án þess að eiga svo mikið sem sam­tal við ríkis­stjórn og hvað þá Al­þingi.“

Þing­maðurinn segir að þar sem ráð­herra hafi ekki haft svörin á hreinu hafi hún óskað eftir upp­lýsingum um ná­kvæm­lega hvað var keypt, hvers vegna, og að fengnu mati hvers.

„Þetta eru eðli­legar spurningar, þó ráð­herra hafi brugðist ó­kvæða við og reynt að gera lítið úr efninu. Í lok við­tals í fjöl­miðlum sagðist ráð­herra „treysta lög­reglunni full­kom­lega“ til þess að fara var­lega með allar hríð­skota­byssurnar sem hann lét hana fá, og vita al­mennt hvað hún sé að gera.“

Snúist um öryggi borgaranna

Arn­dís segir ekki nema von að Jón treysti lög­reglunni fyrir vopnum og hafi engar á­hyggjur af mis­beitingu valds af hennar hálfu. Ráð­herra til­heyri þeim hópi sem ó­lík­legt sé, ef ekki nánast úti­lokað, að valdi sé mis­beitt gegn.

„Spurningar mínar og á­hyggjur snúast því ekki um að hafa ekki skilning á öryggis­sjónar­miðum. Þær snúast um öryggis­sjónar­mið. Sjónar­mið um öryggi borgaranna gegn of­ríki stjórn­valda, ekki bara öryggi mið­aldra, hvítra valda­manna gegn ó­skil­greindri utan­að­komandi ógn við vald þeirra.“

Þing­maðurinn segir ráð­herra ef til vill eiga erfitt með að skilja þetta, þar sem hann sé vald­hafinn í þessari mynd. Hann sé ekki bara hvítur, sís-kynja karl­maður.

„Heldur er hann hvorki meira né minna en æðsti ráða­maður þeirra stjórn­valda sem hann segist svo auð­mjúkur treysta. Talandi um að skorta skilning.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×