Sigurður í bandarísku lista- og vísindaakademíuna

Sigurður Reynir Gíslason.
Sigurður Reynir Gíslason. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur og rannsóknaprófessor við Jarðvísindastofnun Háskólans, hefur verið kjörinn heiðursmeðlimur í bandarísku lista- og vísindaakademíunni (American Academy of Arts and Sciences) fyrir störf sín á sviði jarðvísinda.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að akademían sé í senn samfélag sem heiðrar framúrskarandi vísindamenn, listamenn og leiðtoga og leiðir saman vísindamenn og sérfræðinga úr ólíkum vísinda-, lista- og starfsgreinum til að takast á við áskoranir sem snerta samfélög um allan heim.

Í hópi 25 alþjóðlegra heiðursmeðlima 

Sigurður Reynir er í hópi 25 alþjóðlegra heiðursmeðlima sem teknir eru inn að þessu sinni og bætist þar í hóp ekki ómerkari erlendra akademíumeðlima en Charles Darwin, Albert Einstein, Wislawa Szymborska, Gabriel Garcia Márquez, Nelson Mandela og Claude Jean Allegre.

Sigurður Reynir, sem lauk BS-gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og doktorsprófi í jarðefnafræði frá Johns Hopkins University í Bandaríkjunum árið 1985, er í góðum hópi fræðimanna í flokki stjörnufræði, stjarneðlisfræði og jarðvísinda sem teknir hafa verið inn í Bandarísku lista- og vísindaakademíuna.

Þekktastur við CarbFix verkefnið

Hann er þekktastur fyrir forystuhlutverk sitt innan CarbFix-verkefnisins en hann gegndi formennsku í Vísindaráði þess frá upphafi þess 2006 til 2020. Verkefnið snýst um að binda koltvíoxíð í basaltjarðlögum og hefur árangur þess við niðurdælingu og bindingu koltvíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun og víðar vakið heimsathygli og hlotið ýmsar viðurkenningar.

Sigurður Reynir verður formlega tekinn inn í Bandarísku vísindaakademíuna við athöfn í heimaborg akademíunnar, Cambridge í Massachusetts, í september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert