Stuðningsmaður Herthu Berlínar lést eftir líkamsárás

Leikmenn Herthu Berlínar fagna marki gegn Hamburg.
Leikmenn Herthu Berlínar fagna marki gegn Hamburg. AFP/Ronny Hartmann

Stuðningsmaður þýska knattspyrnufélagsins Herthu Berlín er látinn eftir að hafa orðið fyrir fólskulegri líkamsárás í kjölfar fyrri leik karlaliðsins gegn Hamburg í umspili um laust sæti í þýsku 1. deildinni fyrir rúmum mánuði síðan.

Samkvæmt danska knattspyrnumiðlinum Bold.dk gaf hinn 55 ára gamli stuðningsmaður Herthu sig á tal við annan mann eftir leikinn þann 19. maí, sem hafi endað með því að stuðningsmanninum var fleygt í jörðina svo hann skall með höfuðið í malbikið.

Eftir að hafa legið inni á sjúkrahúsi í rúman mánuð lést maðurinn af áverkum sínum í gær.

 „Félagið er í áfalli og miður sín að heyra af fráfalli stuðningsmanns Herthu, sem varð fyrir meiðslum eftir fyrri leik liðsins gegn Hamburg í fall umspilinu á Ólympíuleikvanginum í Berlín. Við samhryggjumst ættingjum fórnarlambsins innilega.

Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að aðstoða við rannsóknina á þessu hræðilega athæfi og hvetjum öll vitni til þess að setja sig í samband við lögregluna í Berlín,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu á heimasíðu Herthu Berlín.

Hertha Berlín vann að lokum umspilið við Hamburg og hélt þannig sæti sínu í þýsku 1. deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert