Dagur og Ólafur allt í öllu hjá KA

Dagur Gautason var frábær í liði KA í dag og …
Dagur Gautason var frábær í liði KA í dag og skoraði 13 mörk. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

KA vann góðan heimasigur á Herði í úrvalsdeild karla í handbolta í KA-heimiliu á Akureyri í dag.

KA-menn byrjuðu betur í leiknum en Harðverjar voru ekki langt undan á upphafsmínútunum. Nokkuð dró í sundur með liðunum þegar leið á fyrri hálfleik og KA náði sex marka forskoti um miðbik hans. Harðverjar komu til baka og minnkuðu muninn jafnt og þétt.

Þeim tókst að jafna metin þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og komast í fyrsta sinn yfir í leiknum þegar ein mínúta var eftir í stöðunni 16:17 og þannig stóðu leikar þegar leikmenn gengu til búningsherbergja eftir fyrri hálfleikinn.

KA-liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og tókst liðinu að jafna og komast yfir snemma í hálfleiknum. Heimamenn leiddu og náðu fimm marka forskoti um miðjan seinni hálfleik.

Gestirnir gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í eitt mark í stöðunni 30:29 þegar um þrjár mínútur lifðu leiks.

Við tóku spennandi lokamínútur en heimamenn í KA reyndust sterkari og lönduðu þeir sætum eins marks sigri á Vestfirðingum, 32:31.

Það er óhætt að segja að heimamenn hafi ekki dreift markaskorun mikið á milli sín í dag en aðeins fimm leikmenn KA komust á blað. Dagur Gautason skoraði flest þeirra eða 13 talsins og Ólafur Gústafsson skoraði 11 stykki.

Leó Renaud-David var atkvæðamestur Harðverja með 7 mörk.

Eftir sigurinn eru KA-menn með 11 stig og jafna þeir Gróttu að stigum í 9. sæti deildarinnar en Seltirningar eiga þó leik til góða. Hörður er enn á botni deildarinnar með 1 stig.

Mörk KA: Dagur Gautason 13, Ólafur Gústafsson 11, Allan Nordberg 4, Gauti Gunnarsson 3, Patrekur Stefánsson 1.

Var­in Skot: Nicholas Satchwell 8, Bruno Bernat 7.

Mörk Harðar: Leó Renaud-David 7, Guilherme Andrade 5, Suguru Hikawa 3, Mikel Amilibia Aristi 3, José Esteves Neto 3, Guntis Pilpuks 3, Óli Björn Vilhjálmsson 2, Jón Ómar Gíslason 2, Sudario Eidur Carneiro 1, Victor Iturrino 1, Jhonatan Santos 1.

Var­in skot: Rolands Lebedevs 5, Emannuel Evangelista 2.

Ólafur Gústafsson lét mikið til sín taka og skoraði 11 …
Ólafur Gústafsson lét mikið til sín taka og skoraði 11 mörk. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert