Sport

Allt að fjöru­tíu þjóðir gætu snið­gengið Ólympíu­leikana vegna þátt­töku Rússa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kamil Bortniczuk, íþrótta og ferðamálaráðherra Póllands segir að allt að fjörutíu þjóðir gætu sniðgengið Ólympíuleikana ef Rússar og Hvít-Rússar fá þátttökurétt á leikunum.
Kamil Bortniczuk, íþrótta og ferðamálaráðherra Póllands segir að allt að fjörutíu þjóðir gætu sniðgengið Ólympíuleikana ef Rússar og Hvít-Rússar fá þátttökurétt á leikunum. Stanislav Kogiku/SOPA Images/LightRocket via Getty Images

Kamil Bortniczuk, íþrótta- og ferðamálaráðherra Póllands, segir að allt af fjörutíu þjóðir gætu sniðgengið Ólympíuleikana í París á næsta ári fái Rússar og Hvít-Rússar að taka þátt á leikunum.

Þetta sagði Bortniczuk í kjölfar þess að Pólland, Litháen, Eistland og Lettland neituðu í sameiningu áformum Alþjóðaólympíunefndarinnar, IOC, um að leyfa Rússum og Hvít-Rússum að taka þátt á Ólympíuleikunum á næsta ári. Úkraína hefur hótað því að sniðganga leikana ef Rússar og Hvít-Rússar fá þátttökurétt.

Bortniczuk segist hafa trú á því að hægt sé að mynda bandalag allt að fjörutíu þjóða sem myndu vilja koma í veg fyrir áform IOC. Hann telur að Bretland, Bandaríkin og Kanada séu meðal þessara fjörutíu þjóða og að hægt sé að koma í veg fyrir þessi áform áður en nefndin hittist þann 10. febrúar næstkomandi.

„Vegna þessa tel ég ekki að við þurfum að taka neinar erfiðar ákvarðanir áður en Ólympíuleikarnir hefjast,“ sagði Bortniczuk.

„Ef að við myndum sniðganga leikana verður bandalagið nægilega stórt til að gera leikana tilgangslausa.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×