4. janúar 2024 kl. 21:18
Íþróttir
Körfubolti

Valur hafði betur í toppslagnum

Toppslagur úrvalsdeildar karla í körfubolta fór fram að Hlíðarenda í kvöld þegar Valur tók á móti Þór Þorlákshöfn. Eftir ellefu umferðir voru liðin jöfn með 16 stig á toppnum.

Valur-Þór Þorlákshöfn apríl 2023
Körfubolti karla
Kristófer Acox
RÚV / Mummi Lú

Gestirnir frá Þorlákshöfn voru beittari framan af og voru þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og í leikhléi var munurinn orðinn fimm stig, 39-34. Þórsarar voru enn með yfirhöndina í þriðja leikhluta fyrir utan örstutta stund í lok hans þegar Valur komst yfir en Þór var 63-61 yfir fyrir lokafjórðunginn. Valur komst á ný yfir snemma í fjórða leikhluta en nú náðu Þórsarar ekki að svara. Valur vann 90-82 og situr eitt á toppnum.

Joshua Jefferson leiddi stigaskorun Hlíðarendapilta en hann var með 28 stig og bætti við sjö stoðsendingum. Tómas Valur Þrastarson fór fyrir Þórsurum með átján stig, sex fráköst og tvær stoðsendingar.

Keflavík nýtti sér þetta og jafnaði við Þorlákshafnarbúa í 2.-3. sæti með sigri á Hamri í Keflavík í kvöld, 100-88. Þá vann Grindavík Hött á Egilsstöðum 78-71 og Breiðablik lagði Hauka á Ásvöllum 95-86. Annað kvöld mætast svo Stjarnan og Njarðvík og Tindastóll og Álftanes.