Samdi við Sogndal til þriggja ára

Valdimar Þór Ingimundarson í leik gegn Frökkum í lokakeppni EM …
Valdimar Þór Ingimundarson í leik gegn Frökkum í lokakeppni EM 21-árs liða í Ungverjalandi á síðasta ári. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Norska knattspyrnufélagið Sogndal tilkynnti nú í hádeginu að gengið hefði verið frá samningi við Valdimar Þór Ingimundarson sem gildir til loka keppnistímabilsins 2024.

Valdimar, sem er 22 ára gamall miðjumaður, kemur til Sogndal frá Strömsgodset þar sem hann lék frá haustinu 2020 þegar félagið fékk hann frá Fylki. Hann lék sinn fyrsta A-landsleik fyrr í þessum þessum mánuði þegar Ísland mætti Úganda í Tyrklandi og hann hefur leikið ellefu leiki með 21-árs landsliðinu.

Valdimar lék 26 leiki með Strömsgodset í norsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim tvö mörk en var aðeins í byrjunarliðinu í fjórum leikjum í deildinni á síðasta tímabili.

Þar með eru tveir Íslendingar komnir til Sogndal en félagið fékk Hörð Inga Gunnarsson frá FH fyrr í þessum mánuði. Liðið endaði í sjötta sæti norsku B-deildarinnar á síðasta tímabili og féll út í umspili um úrvalsdeildarsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert