Fái bifreið fyrir hjólastóla á fyrri hluta þessa árs

Hussein Hussein, flóttamaður frá Írak, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Hussein Hussein, flóttamaður frá Írak, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Samsett mynd

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni á viðbrögðum ríkislögreglustjóra af flutningi Hussein Hussein, manni með fötlun í hjólastól, til Grikklands í byrjun nóvember.

Vonast er til að lögreglan geti keypt eða leigt bifreið til þess að flytja einstaklinga í hjólastól á fyrra hluta þessa árs.

Óskaði eftir upplýsingum

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum varðandi framkvæmdina nokkrum dögum eftir að hún fór fram, 2. nóvember. 

Í desember greindi ríkislögreglustjóri frá því að verið væri að skoða verklagið og skýrsla yrði send til dómsmálaráðuneytisins. Sú skýrsla er enn í vinnslu. 

Kallar eftir einstaklingsbundnu mati

Í bréfi sem Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, sendi til ríkislögreglustjóra í gær kemur fram að ekki er talið tilefni til að halda athugun málsins áfram að svo stöddu. Áfram verði þó fylgst með málinu af hálfu embættisins. 

„Að endingu telur umboðsmaður rétt að ítreka nauðsyn þess að við skipulagningu og undirbúning ákvarðana um framkvæmd brottvísana umsækjanda um alþjóðlega vernd, fari, af hálfu lögreglu, fram einstaklingsbundið mat á þörfum þeirra einstaklinga sem um ræðir þar sem tekið er sérstakt tillit til manna í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna fötlunar...,“  segir í bréfi Skúla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert