Fjárfestingarátak skapi nær einungis karlastörf

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sést hér kynna fjárlagafrumvarp og …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sést hér kynna fjárlagafrumvarp og fjármálaáætlun næsta árs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nær öll þau störf sem skapa á með fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar eru hefðbundin karlastörf og er því fyrirsjáanlegt að átakið mun auka á kynjamisrétti. 

Þetta kemur fram í umsögn BSRB um frumvarp til fjárlaga og tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár, sem send hefur verið Alþingi. Þar segir að um 85 prósent þeirra starfa sem verða til með átakinu verði hefðbundin karlastörf.

Samtökin segja fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar fá „falleinkunn út frá jafnréttissjónarmiðum“ í umsögn sinni og að „fljótlegasta leiðin til atvinnusköpunar fyrir konur er að auka framlög til opinberrar þjónustu“.

Í umsögn BSRB er einnig gagnrýnt að stjórnvöld ráðist í ófjármagnaðar skattalækkanir sem ekki tengjast heimsfaraldrinum og ítrekar bandalagið mótmæli sín við þeirri stefnu. Að auki gerir BSRB alvarlegar athugasemdir við það að ekki sé lögð ríkari áhersla á aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar.

Lesa má umsögn BSRB í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert