Styttra sölutímabil og skemmri skottími

Starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skilað tillögum hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Samkvæmt þeim verður meðal annars eingöngu heimilt að skjóta upp flugeldum á alls 20 klukkustunda tímabili um áramót.

Samkvæmt tillögunum verður einungis heimilt að selja flugelda dagana 30., 31. desember og 6. janúar.

Enn fremur verður eingöngu heimilt að skjóta upp stærri flugeldum frá klukkan 16.00 á gamlársdag og til klukkan 2 eftir miðnætti á nýársnótt. Síðan verði aftur leyft að skjóta þeim upp frá 16.00 - 22.00 á nýársdag og innan sama tímaramma 6. janúar.

Sveitarfélög hafa þó heimild til að leyfa sölu flugelda einn dag til viðbótar frá 2. - 5. janúar við sérstakar aðstæður og með fengnu leyfi lögreglu.

Megin niðurstaða starfshópsins er að nauðsynlegt sé að takmarka sem mest þá mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá einstaklingum. Einnig þurfi að hafa hugfast óæskileg áhrif skotelda um áramót á áhrif á atferli og líðan margra dýra. Jafnframt bendir starfshópurinn á að huga þurfi að loftmengun hér á landi í víðu samhengi og að draga þurfi úr allri mengun þar sem það er mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning.

Með reglugerðarbreytingunni er gert ráð fyrir að þrengja tímamörk um almenna notkun skotelda og fækka söludögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert