Deildar meiningar um NATO-aðild Úkraínu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. AFP/Tobias Schwarz

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), sagði að deildar meiningar væru meðal bandalagsþjóða um hvernig bregðast eigi við umsókn Úkraínu um aðild. Aðildarumsóknin verður væntanlega rædd á leiðtogafundi NATO sem haldinn verður í Vilníus í Litháen í júlí.

Stoltenberg sagði á ráðstefnu í Brussel að innan bandalagsins séu skoðanir skiptar og að aðeins sé hægt að ná niðurstöðu í málinu sem sé samróma ákvörðun alla aðildarlanda. Innan þess er þó að finna mikinn þrýsting frá aðildarríkjum í Austur-Evrópu sem óska eftir því að Úkraína gangi í bandalagið um leið og ófriður hættir.

Úkraína þrýstir á skýrari skilaboð

Úkraínumenn átta sig á því að aðild er ómöguleg meðan enn ríkir stríðsástand í landinu. Þeir óska þó frekari trygginga en þeirra óljósu fyrirheita um aðild sem gefin voru árið 2008, þegar þeir sóttust fyrst eftir aðild. Heimildir herma að meðal þeirra sem eru tregir við aðildarumsóknina séu Bandaríkjamenn, enda myndi NATO-aðild Úkraínu þýða að landið væri tryggt af 5. grein Atlantshafssáttmálans, sem kveður á um að árás á eitt ríki bandalagsins sé árás á þau öll.

Stoltenberg segist þó fullviss um að samkomulag náist í Vilníus um áframhaldandi stuðning við Úkraínu sem meðal annars felst í því að þjálfa Úkraínumenn í notkun á vestrænum hergögnum og búnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert