Ber mikla virðingu fyrir Íslandi

Faruk Hadzibegic stýrir æfingu landsliðsins.
Faruk Hadzibegic stýrir æfingu landsliðsins. Ljósmynd/Knattspyrnusamband Bosníu

„Ég myndi ekki segja að við værum sigurstranglegri, ekki fyrr en við vinnum þá. Ég ber mikla virðingu fyrir Íslandi,“ sagði Faruk Hadzibegic, landsliðsþjálfari karlaliðs Bosníu í fótbolta, á blaðamannafundi á Bilino Polje-vellinum í Zenica í dag.

„Auðvitað viljum við fara á EM. Við eigum möguleika á að ná fyrsta eða öðru sæti en líka á að komast í umspil. Best væri að ná í efsta sætinu, en það er kannski ekki alveg raunhæft, því við erum með góðum liðum í riðli,“ bætti hann við.

Hadzibegic var á staðnum þegar Ísland tapaði með svekkjandi hætti í vináttuleik gegn Svíþjóð á Algarve í Portúgal í janúar. Hann var hrifinn af því sem hann sá frá íslenska liðinu í þeim leik.

„Ísland er ekki með síðra lið en fyrir fimm árum. Þú verður að bera virðingu fyrir þeim leikmönnum sem eru í liðinu núna. Ég var mjög hrifinn af því sem ég sá í síðustu vináttulandsleikjum hjá Íslandi. Það verður ekki létt, en við munum sækja til sigurs,“ sagði hinn 65 ára gamli Hadzibegic.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert