Íslenski boltinn

Ís­lands­meistararnir komu til baka eftir að lenda þremur mörkum undir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Axel Freyr Harðarson ásamt Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings.
Axel Freyr Harðarson ásamt Arnari Gunnlaugssyni, þjálfara Víkings. Facebook/Víkingur

Það tók Íslands- og bikarmeistara Víkings dágóða stund að sýna hvers þeir eru megnugir er Víkingur og Fylkir mættust í Reykjavíkurmóti karla í knattspyrnu í kvöld. Eftir að lenda 3-0 undir vann Víkingur á endanum 4-3 sigur.

Fylkir skoraði þrívegis á fyrstu 17 mínútum leiksins. Ómar Björn Stefánsson kom þeim yfir, Nikulás Val Gunnarsson tvöfaldaði forystuna og Óskar Borgþórsson kom Fylki óvænt í 3-0.

Það er hins vegar ástæða fyrir því að Víkingar eru tvöfaldir meistarar á meðan Fylkir féll úr Pepsi Max-deildinni síðasta sumar. Birnir Snær Ingason minnkaði muninn í 3-1 og Axel Freyr Harðarson skoraði annað mark Víkings undir lok fyrri hálfleiks, staðan 3-2 Fylki í vil í hálfleik.

Pablo Punyed jafnaði metin þegar klukkutími var liðinn og þegar fimm mínútur lifðu leiks bætti Axel Freyr við öðru marki sínu. Staðan orðin 4-3 Víkingum í vil og reyndust það lokatölur í stórskemmtilegum leik.

Um var að ræða fyrsta leik beggja liða í mótinu. Þau eru í A-riðli ásamt Val og Fjölni en fyrrnefnda liðið vann það síðarnefnda 8-1 á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×