Bestur í lokaleik tímabilsins

Jón Axel Guðmundsson í landsleik.
Jón Axel Guðmundsson í landsleik. Ljósmynd/FIBA

Jón Axel Guðmundsson landsliðsmaður í körfuknattleik lauk keppnistímabilinu í Þýskalandi á góðum nótum í dag en hann var í aðalhlutverki í sigri Fraport Skyliners á Hamburg, 96:89.

Jón Axel var stigahæstur á vellinum með 24 stig en hann tók auk þess fjögur fráköst og átti þrjár stoðsendingar fyrir Fraport. Jón Axel spilaði í 25 mínútur.

Lið hans endar í tólfta sæti af átján liðum með 26 stig eftir þrettán sigra og 21 tap á tímabilinu. Liðið var átta stigum frá úrslitakeppninni en tíu stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar. 

Ludwigsburg vann deildina með 60 stig og Alba Berlín fékk 56 stig en þessi lið voru í nokkrum sérflokki. Oldenburg, Bayern München og Crailsheim fengu 48 stig, Ulm 46, Hamburg 42 og Bamberg 34 stig en þessi átta lið fara í úrslitakeppnina um þýska meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert