Vill að sjálfsögðu spila fyrir land og þjóð

Teitur Örn Einarsson fékk að spreyta sig fyrst á stórmóti …
Teitur Örn Einarsson fékk að spreyta sig fyrst á stórmóti á HM 2019 í Þýskalandi og er hér í leik á móti Spáni. AFP

„Maður er búinn að sitja inni á hóteli í töluverðan tíma og menn eru því orðnir spenntir að komast inn á völlinn í smá æsing. Við erum einbeittir. Höfum æft rosa vel og erum eins vel skipulagðir og við getum,“ sagði Teitur Örn Einarsson, landsliðsmaður í handknattleik, þegar mbl.is spjallaði við hann á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest í dag. 

Teitur var ekki valinn í liðið á HM í fyrra og er því ákveðinn í að sanna sig á EM í Búdapest en fyrsti leikur Íslands er gegn Portúgal á föstudag.  Samkeppnin er hörð á hægri vængnum því í hópnum eru auk Teits þeir Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson og Kristján Örn Kristjánsson. Sigvaldi Björn Guðjónsson er hins vegar eini hægri hornamaðurinn og því gæti Teitur verið valkostur í hægra hornið þegar hvíla þarf Sigvalda. 

„Að sjálfsögðu vill maður spila fyrir land og þjóð. En við erum það heppnir að vera með fjórar góðar skyttur hægra megin. Maður þarf að sýna hvað maður getur til að fá tækifæri. Mér líst mjög vel á hvernig Gummi [landsliðsþjálfari] er að vinna úr þessu núna. Það hentar mér alla vega vel. Hann vill hafa margar skyttur og vera með skyttu sem geti spilað í horninu. Ég segi nú að ég geti spilað í horninu og tel mig vera færan í það.“

Teitur segir hafa ágæta tilfinningu fyrir leikjunum sem framundan eru. „Ég hef góða tilfinningu fyrir komandi leikjum. Menn eru í þokkalega góðu standi og nánast allir eru heilir. Við erum í sterkum riðli og Portúgalarnir eru góðir. Þetta verður spurning um hversu einbeittir og viljugir við verðum í að vinna leikina,“ sagði Teitur.  

Teitur Örn Einarsson í leik á móti Ísrael í undankeppni …
Teitur Örn Einarsson í leik á móti Ísrael í undankeppni EM í apríl. Ljósmynd/HSÍ

Teitur öðlaðist fína reynslu hjá Kristianstad í Svíþjóð. Hann var í stóru hlutverki og liðið var í toppbaráttu. Auk þess var dýrmætt fyrir hann að spila með liðinu í Meistaradeildinni. Í vetur fór hann óvænt til Flensburg og hefur stimplað sig þar inn hratt og vel. Flensburg hefur verið sterkt lið í Evrópu í áratugi og því hlýtur sjálfstraustið að hafa aukist mjög hjá Teiti eftir velgengnina með Flensburg.

„Jú algerlega. Einhvern veginn small allt þegar ég mætti til Flensburg. Þetta er risafélag og allt annað dæmi en hjá Kristianstad þótt það sé líka stórt félag. Maður bætir sig á því að spila með betri leikmönnum ekki sist þegar [Jim] Gottfridsson og Mensah [Mads Mensah Larsen] eru að stýra manni í leikjum og á æfingum á hverjum degi.  Maður verðu rsjálfkrafa betri handboltamaður þegar maður spilar með svo góðum gæjum,“ sagði Teitur ennfremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert