Koma Keflvíkingar Njarðvíkingum til aðstoðar?

Eysteinn Bjarni Ævarsson er einn mikilvægasti leikmaður Hattar.
Eysteinn Bjarni Ævarsson er einn mikilvægasti leikmaður Hattar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Deildakeppninni í Dominos-deild karla í körfuknattleik lýkur í kvöld með heilli umferð og þá kemur í ljós hvaða lið þarf að sætta sig við að falla um deild ásamt Haukum. 

Eftir afar spennandi botnbaráttu síðustu vikurnar eru Haukar fallnir með 12 stig. Höttur er með 14 stig og þarf á sigri að halda gegn deildameisturunum í Keflavík á heimavelli á Egilsstöðum til að eiga möguleika. Njarðvík þarf þá að tapa gegn Þór Þ. á heimavelli. Njarðvík og ÍR eru með 16 stig. Höttur er með betri innbyrðis árangur gegn Njarðvík en ekki gegn ÍR. 

Njarðvík og ÍR eru einnig í þeirri stöðu að geta komist í úrslitakeppnina en þau eru tveimur stigum á eftir Tindastóli og Þór Akureyri sem eru með 18 stig. 

Margt annað kemur á daginn í kvöld eins og hvaða lið lenda saman í úrslitakeppninni en deildin er mjög jöfn fyrir utan öruggt forskot Keflvíkinga á toppnum. Hægt er að sjá stigatöfluna hér á íþróttavef mbl.is. 

Leikir kvöldsins: 

Þór Akureyri - Haukar
Höttur - Keflavík
Valur - Grindavík
Tindastóll - Stjarnan
KR - ÍR
Njarðvík - Þór Þorlákshöfn

Mario Matasovic og liðsfélagar hans í Njarðvík geta komist í …
Mario Matasovic og liðsfélagar hans í Njarðvík geta komist í úrslitakeppnina þrátt fyrir fremur erfiðan vetur en eru einnig í fallhættu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert