„Nánast allt gekk upp“

Snæfríður Sól Jórunnardóttir að loknu sundinu í Tókýó í morgun.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir að loknu sundinu í Tókýó í morgun. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Sundkonan Snæfríður Sól Jórunnardóttir var mjög ánægð með sund sitt þegar hún hlaut eldskírn sína á Ólympíuleikum með því að slá sitt eigið Íslandsmet í undanrásum 200 metra skriðsunds kvenna á leikunum í Tókýó í morgun.

„Mér leið vel og nánast allt gekk upp í sundinu. Ég er mjög sátt við að bæta minn besta árangur hér í Tókýó,“ sagði Snæfríður Sól í stuttu samtali við mbl.is.

Hún synti á 2:00,20 mínútum og bætti þar með eigið Íslandsmet, sem var 2:00,50, og lenti í 22. sæti í undanrásunum. Það þýddi að hún komst ekki áfram í úrslitin, þar sem 16 efstu tryggðu sér sæti.

Eyleifur Jóhannesson, þjálfari Snæfríðar Sólar, var líkt og hún sjálf mjög ánægður með frammistöðuna.

„Hún synti 100 prósent eftir því sem lagt var upp með. Síðustu vikurnar höfum við mikið æft útfærsluna á sundinu og rætt um að hún syndi sitt eigið sund.

Frá fyrsta sundtaki hittir hún á réttan takt og útfærir sundið á besta veg. Ég er mjög sáttur við hennar frammistöðu og hvernig hún hefur nálgast þetta verkefni,“ sagði hann í stuttu samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert