Fótbolti

Gagnrýnir farþegana í liði PSG og segir liðið eiga enga möguleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar og Lionel Messi ganga saman af velli eftir tapið á móti Manchester City í gær.
Neymar og Lionel Messi ganga saman af velli eftir tapið á móti Manchester City í gær. AP/Scott Heppell

Flest lið myndu eflaust gefa mikið fyrir að geta telft fram framlínutríóinu Lionel Messi, Kylian Mbappe og Neymar. Þessir þrír standa þó í vegi fyrir möguleikum Paris Saint Germain að mati knattspyrnusérfræðings Sky Sports.

Gamli Liverpool miðvörðurinn Jamie Carragher var nefnilega með sterka skoðun á framherjunum þremur eftir tap PSG á móti Manchester City í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Kylian Mbappe kom PSG reyndar í 1-0 í leiknum en mörk frá Raheem Sterling og Gabriel Jesus tryggði ensku meisturunum sigurinn í seinni hálfleik.

„Ég er á því að í dag geti lið ekki verið með farþega,“ sagði Jamie Carragher á CBS Sports.

„Það eru fjögur lið sem mér finnst geta unnið Meistaradeildina og það eru Man City, Liverpool, Chelsea eða Bayern München. Það er enginn farþegi í þeim liðum,“ sagði Carragher.

„Þetta PSG lið er með þrjá farþega í sínu liði og þessa vegna eiga þeir enga möguleika á því að vinna Meistaradeildina, alls enga,“ sagði Carragher. Hann er þá að tala um tríóið Lionel Messi, Kylian Mbappe og Neymar.

Carragher er sérstaklega ósáttur með Mbappe, sem er mun yngri en Messi, en sýnir engan vilja í að hlaupa til baka og hjálpa sínu liði í varnarleiknum.

„Ég verð pirraður að horfa á þetta og þá sérstaklega Mbappe. Ég get skilið það með Messi upp að ákveðnu marki af því að hann er 34 ára og þarf að spara sig fyrir ákveðin móment,“ sagði Carragher.

„Ég tel samt að þeir geti ekki borið hann í mark og við skulum ekki gleyma því heldur að Barcelona hefur ekki unnið Meistaradeildina í langan tíma,“ sagði Carragher.

„En Mbappe er enn bara 22 ára gamall og hann ætti að vera hlaupa til baka til að hjálpa liðsfélögum sínum á móti toppliði eins og Man. City. Þetta snýst um að þeir eru að labba um völlinn og það er ekki fyrr mig,“ sagði Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×