Erlent

Ísraelar byrja að opna hagkerfið og búið að bólusetja þriðjung þjóðarinnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelar hafa fjölmennt í verslunum í dag.
Ísraelar hafa fjölmennt í verslunum í dag. EPA/ABIR SULTAN

Ráðamenn í Ísrael felldu í dag niður stóran hluta aðgerða sem ætlað hefur verið að sporna gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar þar í landi. Fyrirtæki voru opnuð í massavís en búið er að bólusetja rúman þriðjung þjóðarinnar eða um þrjár milljónir manna.

Starfsemi tiltekinna fyrirtækja eins og líkamsræktarstöðva, hótela og kvikmyndahúsa er þó eingöngu aðgengilega fólki sem hefur fengið „græna passann“ svokallaða. Það er að segja fólk sem hefur verið bólusett og fengið vottorð.

Nákvæmlega ár er frá því að Covid-19 smit greindist innan landamæra Ísraels, samkvæmt frétt Reuters fréttaveitunnar. Þá stendur til að opna hagkerfi Ísraels enn meira í næsta mánuði.

Þá verða haldnar kosningar í Ísrael en Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, tísti um áfangann í gær og sagði hann Ísrael vera fyrsta ríkið til að grípa til þessara aðgerða og væri það vegna samkomulagsins sem ríkisstjórn hans hefði gert við lyfjafyrirtækið Pfizer.

Fólki er enn gert að vera með grímum og stunda félagsforðun. Þá er má ekki dansa á skemmtistöðum og bænahús mega einungis taka á móti helmingi hámarksfjölda.

Enn eru hlutar skóla ríkisins lokaðir en einungis yngstu nemendum hefur verið hleypt þar inn aftur.

AFP fréttaveitan segir að önnur ríki heimsins fylgist náið með því hvernig „græni passinn“ virkar í Ísrael. Litið sé til þess hvernig það virki varðandi enduropnun hagkerfis ríkisins.

Times of Israel segir að vefsíðan þar sem fólk sæki um græna passann hafi ítrekað hrunið í dag.

Í grein Times of Israel segir að Ísraelar hafi fjölmennt í nýopnuðum fyrirtækjum en sóttvarnarreglum hafi áfram verið fylgt vel eftir. Það hafi þó ekki gengið fullkomlega.

Eins og áður segir hafa þrjár milljónir fengið seinni skammt bóluefnis Pfizer. Rúmlega fjórar milljónir hafa fengið fyrri skammtinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×