Vilja láta rannsaka Liverpool vegna frestunar

Trent Alexander-Arnold reyndist eini leikmaður Liverpool sem var í raun …
Trent Alexander-Arnold reyndist eini leikmaður Liverpool sem var í raun og veru smitaður af kórónuveirunni. AFP

Nokkur félög vilja nú að Enska deildakeppnin, EFL, rannsaki Liverpool eftir að Jür­gen Klopp, knatt­spyrn­u­stjóri Li­verpool, viðurkenndi í gær að aðeins einn leikmaður hafi í raun og veru greinst með kórónuveiruna.

Fyrri leik Arsenal og Liverpool í undanúrslitum enska deildabikarsins, sem er á vegum EFL, og átti að fara fram síðastliðið fimmtudagskvöld, var frestað eftir að svo virtist sem hópsmit hafi komið upp hjá Liverpool.

Æfingasvæði liðsins var lokað og EFL féllst á beiðni Liverpool um að fresta leiknum þar sem ekki væri mögulegt að ná í lið vegna hópsmitsins.

Í gær sagði Klopp hins vegar að megnið af niðurstöðunum úr skimun leikmanna fyrir veirunni hafi reynst falskar.

The Athletic greinir frá því að fyrst hafi fjöldi leikmanna Liverpool greinst jákvæðir í hraðprófi og að sömu leikmenn hafi svo skömmu síðar einnig greinst jákvæðir þegar sjálfstætt starfandi rannsóknarmiðstöð hafi séð um einkennasýnatöku, þar sem stuðst var við svokölluð PCR-próf.

Þegar leikmennirnir voru skimaðir þriðja sinni, eftir að leikurinn átti að fara fram þann 6. janúar, reyndust hins vegar allir leikmennirnir nema einn, Trent Alexander-Arnold, neikvæðir.

Félögin, sem sum hver hafa þurft að sætta sig við að EFL hafi hafnað beiðnum þeirra um frestanir undanfarinn mánuð og kalla nú eftir því að málið verði rannsakað, vilja fá það á hreint hvenær Liverpool hafi í raun og veru vitað að leikmennirnir væru ekki smitaðir og þá hvort leikurinn á fimmtudagskvöldinu hefði getað farið fram.

Ákveði EFL að rannsaka málið gæti Liverpool staðið frammi fyrir harðri refsingu verði félagið fundið sekt um að hafa látið frestað leik án grundvallar.

Samkvæmt smitrakningarteymi Bresku heilbrigðisþjónustunnar, NHS, eru líkurnar á því að hraðpróf skili falskri niðurstöðu gífurlega litlar, eða 0,03 prósent líkur.

Líkurnar á því að fjöldi slíkra prófa sem eru tekin með stuttu millibili skili falskri niðurstöðu eru því enn minni og nánast ómöguleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka