Auður Daníelsdóttir sem sinnt hefur stöðu framkvæmdastjóra sölu- og ráðgjafar hjá Sjóvá, hefur sagt starfi sínu lausu og mun Birgir Viðarsson taka við stöðunni. Í framhaldi af þessu mun Sjóvá gera breytingar á skipuriti sínu sem felur m.a. í sér að framkvæmdastjórum fjölgar um einn, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Birgir Viðarsson, eftirmaður Auðar, hefur gegnt starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar á sölu- og ráðgjafarsviði. Hann er verkfræðingur að mennt og hóf störf hjá Sjóvá 2011.

Þá hefur Svali H. Björgvinsson, sem nú gegnir starfi forstöðumanns viðskiptaþróunar og stefnumótunar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðsmála og viðskiptaþróunar. Svali er sálfræðingur að mennt og hóf störf hjá Sjóvá 2018.

Frá og með næstu mánaðarmótum verða eftirtalin í framkvæmdastjórn Sjóvá:

  • Hermann Björnsson - Forstjóri
  • Sigríður Vala Halldórsdóttir - Framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni
  • Elín Þórunn Eiríksdóttir - Framkvæmdastjóri tjónaþjónustu
  • Birgir Viðarsson - Framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar
  • Svali H. Björgvinsson - Framkvæmdastjóri markaðsmála og viðskiptaþróunar

Auður Daníelsdóttir hefur starfað hjá Sjóvá frá árinu 2002 sem framkvæmdastjóri starfsmanna- og rekstrarmála, framkvæmdastjóri tjónasviðs og nú síðast sem framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá

„Á liðnum 19 árum hefur Auður markað djúp spor í rekstri Sjóvár með sínu framlagi. Auður á að baki fjölbreyttan og farsælan feril og hefur tekist á við krefjandi verkefni. Þau hefur hún leyst af hendi með afbrigðum vel enda mikill leiðtogi sem fær samstarfsmenn til að fylgja sér á skýrri og metnaðarfullri vegferð. Það er alltaf gleðiefni þegar einstaklingum býðst að takast á við nýjar áskoranir og byggja ofan á árangursríkan feril sinn. Auði fylgja góðar kveðjur um áframhaldandi gæfuríkt gengi með mikilli virðingu og þakklæti fyrir hennar framlag fyrir Sjóvá.“