„Tilgangslausasta viðbót sögunnar“

Leikurinn Lord of the Rings fær falleinkunn frá flestum dómurum.
Leikurinn Lord of the Rings fær falleinkunn frá flestum dómurum. Samsett mynd

Í mars kom út nýr leikur byggður á sögunni Lord of the Rings eftir J.R.R. Tolkien. Leikurinn hefur verið í vinnslu síðan árið 2019 og var lengi búið að auglýsa leikinn og byggja upp spennu fyrir útgáfudeginum.

Núna rúmum tveimur mánuðum eftir útgáfu leiksins er enginn leikur sem fær jafn slæma dóma og leikurinn um Gollrir og félaga hans í Hringadrottinssögunni. 

Illa hannaður

Samkvæmt dómum á netinu er leikurinn illa gerður, virkar illa og bilar oft. Sagan er sögð dauf og leiðinleg og í sumum tilfellum hreint út sagt tilgangslaus. Spilari er látinn fara í verkefni og fylgja leiðbeiningum og oftar en ekki eru verkefnin leiðinleg eða óáhugaverð. Því hafa nokkrir spilarar velt því fyrir sér, afhverju er leikurinn til?

Í grunninn hljómar hugmyndin af leiknum vel, sagan er vinsæl og kvikmyndirnar klassískar og með betri myndum sögunnar að margra mati. Einn notandi miðilsins Reddit sagði í athugasemd undir tilkynningu um leikinn að leikurinn væri „tilgangslausasta viðbót við leikjaseríu í sögu tölvuleikja“. En framkvæmdin á leiknum misheppnaðist frá upphafi.

Óáhugaverð saga

Sagan nær ekki að fanga athygli spilarans og það er sérstaklega leiðinlegt þegar verkefnin eru óáhugaverð og spilarar lenda oftar en ekki í því að leikurinn bili og þurfi að endurræsa tölvuna.

Því hafa margir hætt spilun því fáir sem eru tilbúnir að ganga svona langt fyrir leiðinleg verkefni. Nokkur kunnugleg andlit koma fyrir í leiknum eins og Gandálfur og Gollrir en gæðin eru léleg og leikurinn lítur illa út, jafnvel þótt hann hafi verið hannaður fyrir bestu leikjatölvurnar. 

Nokkrir hönnuðir hafa þó komið framleiðandanum til varnar og segja þetta óviljaverk, enginn vilji selja lélega leiki og enginn reynir að búa til lélegan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert