Stilltu upp yngsta byrjunarliði í sögu deildarinnar

Flemming Pedersen (t.v.) er þjálfari FC Nordsjælland.
Flemming Pedersen (t.v.) er þjálfari FC Nordsjælland. Ljósmynd/FCN

Knattspyrnuliðið FC Nordsjælland setti met í dönsku úrvalsdeildinni í gær þegar það stillti upp yngsta byrjunarliði í sögu deildarinnar.

Meðalaldur byrjunarliðsins var aðeins 20 ár og 20 dagar, þar sem aðeins þrír í byrjunarliðinu fæddust fyrir árið 2000, og fæddust þessir þrír á árunum 1997, 1998 og 1999. Yngsti leikmaðurinn í byrjunarliði gærdagsins er aðeins 16 ára, fæddur árið 2004.

Það sem meira er um vert er að 13 af leikmönnunum 16 sem tóku þátt í leiknum eru uppaldir í akademíum Nordsjælland í Danmörku og Ghana.

Þá er ekki úr vegi að geta þess að ungt lið Nordsjælland vann þennan tímamótaleik í gær, 2:0, á heimavelli gegn AGF. Jón Dagur Þorsteinsson lék fyrstu 80 mínúturnar í liði AGF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert