Skartgripir frá því fyrir Krist

Þetta er talið vera ökklahringur.
Þetta er talið vera ökklahringur. Ljósmynd/Maths Hellgren

Sænskur maður sem var á gangi um skóg nærri bænum Alingsås í vesturhluta Svíþjóðar á dögunum rambaði á forna muni sem taldir eru vera um 2.500 ára gamlir. Greint er frá málinu í dagblaðinu Göteborgs-Posten.

Um er að ræða 50 hluti, mest skartgripi svo sem hálsmen armbönd og barmmerki. Finnandinn heitir Thomas Karlsson og er kortagerðarmaður. Í samtali við Göteborgs-Posten segir hann að hann hafi fyrst talið sig hafa fundið lampa, en við nánari skoðun séð að þetta væru gamlir skartgripir úr bronsi. Miðað er við að bronsöld hafi staðið yfir í Skandinavíu frá 1.700 til 500 fyrir Krist, áður en járnöld tók við, en víkingaöld tók svo við af henni.

Sænskir fornleifafræðingar segja virkilega sjaldgæft að finna svo forna muni í skógum landsins. Fornir ættbálkar skildu jafnan fórnir eftir í ám og votlendum en hinir nýfundnu gripir voru í skóglendi þar sem ekki hefur verið vatn lengi.

Meðal þeirra skartgripa sem Thomas Karlsson fann í sænska skóginum.
Meðal þeirra skartgripa sem Thomas Karlsson fann í sænska skóginum. AFP

Tengjast hátt settum konum

Thomas Karlsson segir að hann hafi rekið augun í málmhlyt þegar hann leit niður á kort sem hann var að vinna að. Hann segist varla hafa trúað því að þetta gætu verið svo gamlir munir. Þetta hlytu að vera eftirlíkingar. Hann hafði engu að síður samband við fornleigafræðing og eftir rannsóknir margra slíka hefur komið í ljós að gripirnir séu að öllum líkindum frá árunum 750-500 fyrir Krist.

Johan Ling, fornleifafræðingur við Háskólann í Gautaborg, segir að gripirnir séu einstaklega vel varðveittir. „Flestir hlutirnir tengjast líklega hátt settum konum. Meðal gripanna er sérstök tegund af stöng sem notuð var til að hvetja hesta. Slík hefur fundist í Danmörku, en ekki áður í Svíþjóð.

Hugsanleg fundarlaun bara bónus

Samkvæmt sænskum lögum ber mönnum skylda til að tilkynna lögreglunni eða öðrum yfirvöldum um fornleifafund og eru þeir í eigu ríkisins. Fornleifaráð ríkisins metur síðan hvort og þá hve mikið viðkomandi eigi að fá í fundarlaun. Thomas Karlsson segist ekki umhugað um fundarlaun þótt þau gætu verið skemmtilegur viðbótarglaðningur.

„Það er skemmtilegt að eiga þátt í því að uppgötva söguna. Við vitum svo lítið um þetta tímabil þar sem það eru engar ritaðar heimildir,“ segir hann.

Ljósmynd/Mats Hellgren
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert