Gróðursetja tré heitnum ástvinum til heiðurs

Með QR-kóða við tréð geta aðstandendur sett inn æviágrip og …
Með QR-kóða við tréð geta aðstandendur sett inn æviágrip og minningarorð um hinn látna og skilið eftir skilaboð.

Brátt verður hægt að heiðra heitna ástvini með með því að gróðursetja svokallað Minningartré til þess að stuðla að uppbyggingu á fallegu og skjólsælu umhverfi þar sem aðstandendur geta komið og notið góðrar stundar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Minningartré sem er að fara af stað með verkefni sem mun meðal annars vera í samstarfi við Kirkjugarðar Reykjavíkur.

Varan samanstendur af þremur hlutum: tré, minningarkortum sem gerð eru úr lífbrotgjörnu efni og gleymméreifræjum. Þá verður hægt að fá duftker, bæði fyrir einstakling og gæludýr. Allt sem tengist vörunni kemur í umhverfisvænum og lífbrjótanlegum umbúðum.

Hægt að lesa minningarorð með QR kóðum

Með trénu fylgir QR kóði á platta. Með kóðanum geta aðstandendur sett inn æviágrip og minningarorð um hinn látna ásamt því að geta skilið eftir skilaboð. Þá verður einnig hægt að setja inn stutt myndbrot eða skilaboð frá hinum látna ef slíkt er fyrir hendi. Gestir og gangandi geta þá skannað inn QR kóðann og lesið sér til um þann eða þau sem tréð er gróðursett til minningar um.

Í tilkynningunni segir að ,markmið Minningartrés sé það að leggja sitt að mörkum þegar kemur að innleiðingu sjálfbærni.

„Lausnin okkar er að búa til kirkjugarða sem verða fallegir garðar umvafnir skógrækt. Við sjáum fyrir okkur hálfgerða lystigarða þar sem íslensk náttúra spilar stærsta hlutverkið. Fólk getur fengið sér göngutúr og setið á bekkjum inn í garðinum og notið þess að horfa á okkar fallegu náttúru.” er haft eftir Dagbjörtu Jónsdóttur, einum af þremur eigendum Minningartrés. Auk hennar standa Dagný Rut Haraldsdóttir og Guðný Marta Guðlaugsdóttir.

Þær segjast horfa sérstaklega til nágrannaþjóða þar sem sambærileg verkefni hafa gengið afar vel. Fyrirmyndir nýsköpunarverkefnisins eru kirkjugarðar í Danmörku, Svíþjóð og í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert