KR sótti sigur til Eyja

Ægir Jarl Jónsson sem kom KR yfir í byrjun leiks, …
Ægir Jarl Jónsson sem kom KR yfir í byrjun leiks, Telmo Castanheira og Hallur Hansson á Hásteinsvelli í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV tók á móti KR klukkan 18 á Hásteinsvelli í kvöld í Bestu deild karla í knattspyrnu. Nokkurt jafnræði var með liðunum en KR-ingar enduðu á að taka stigin öll með sterkum 2:1-sigri.

Fyrir leikinn voru Eyjamenn með tvö stig eftir hæga byrjun og leikurinn gott tækifæri til að komast í stigagírinn. KR-ingar voru hinsvegar með fjögur stig en sigurlausir í þrem leikjum í röð. Það var því nóg að berjast um á Hásteinsvelli í kvöld.

Eyjamenn gerðu taktískar breytingar á liði sínu frá fyrri leikjum og stilltu upp í 4-4-2. Jón Ingason kom þá inn í vinstri bakvörðin, eftir erfið meiðsli síðasta árið, en Felix Örn Friðriksson fór á hægri kantinn. Rúnar Kristinsson stillti upp öflugu KR-liði en skildi þó Theodór Elmar og Kjartan Henry eftir á bekknum.

KR-ingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og það tók þá ekki nema þrjár mínútur að brjóta vörn Eyjamanna á bak aftur. Fyrirgjöf hafði þá viðkomu hjá Jóni Ingasyni og þaðan út við jaður vítateigs ÍBV. Þar endaði boltinn við fætur Ægis Jarls Jónassonar sem skoraði með föstu skoti sem Halldór Páll, markvörður ÍBV, gat ekki séð við.

Fljótt eftir markið hægðist á KR-ingum og Eyjamenn gengu á vaðið, þó án þess að skapa sér mörg marktækifæri. Andri Rúnar Bjarnason fékk þó gott færi inni í teig KR-inga en brást bogalistinn. Það var svo loks eftir tæplega hálftíma leik þar sem ÍBV komst upp vinstri kantinn. Þar átti Tómas Bent Magnússon fasta fyrirgjöf fyrir mark KR-inga. Kristinn Jónsson, bakvörður KR, misreiknaði boltann eitthvað og stangaði hann í eigið net með ansi myndarlegum flugskalla. Stórundarlegt sjálfsmark og ÍBV búið að jafna, 1:1.

Undir hálfleiksflautið gáfu KR-ingar aðeins í og á 42. mínútu uppskáru þeir mark fyrir vikið. Atli Sigurjónsson, kantmaður KR, átti þá fyrirgjöf af hægri kantinum. Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður ÍBV, hafði sig allan við að skalla boltann frá. Það gekk þó ekki betur en svo að boltinn féll þægilega fyrir Kennie Chopart, bakvörð og fyrirliða KR, sem nelgdi honum í netið framhjá Halldóri Páli. Staðan var því 1:2 fyrir KR þegar Sigurður Hjörtur dómari flautaði til hálfleiks.

Í síðari hálfleik var fátt um fína drætti hjá báðum liðum á efsta hluta vallarins. Eyjamenn freistuðu þess að jafna og hefðu vissulega getað það í uppbótartíma þegar Guðjón Pétur Lýðsson fann Andra Rúnar inni fyrir vörn KR-inga með mjög góðri stungusendingu. Andri Rúnar kom boltanum á hægri fótinn en hitti hann þó illa og fór boltinn laflaust framhjá marki KR-inga.

Rétt fyrir lokaflautið fékk Atli Hrafn Andrason, varamaður ÍBV, að líta rauða spjaldið fyrir groddaralega tæklingu. Hann hafði þá freistast að vinna boltann af aftasta manni KR-inga en náði litlu sem engu af boltanum. Hann verður því a.m.k. í banni þegar ÍBV heimsækir FH um helgina.

Eftir leikinn er ÍBV með tvö stig eftir fimm umferðir og hörð fallbarátta blasir við Eyjamönnum í sumar. KR-ingar eru hinsvegar komnir með sjö stig og hafa komið sér fyrir í efri hluta töflunnar, í það minnsta um stundarsakir.

ÍBV 1:2 KR opna loka
90. mín. Fjórum minútum bætt við og Eyjamenn ekki líklegir til afreka .
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka