Líklega samstíga um uppkosningu

Þórunn Sveinbjarnardóttir að loknum fundi kjörbréfanefndar í dag.
Þórunn Sveinbjarnardóttir að loknum fundi kjörbréfanefndar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar, sem situr í kjörbréfanefnd segir allar líkur á að þingflokkurinn verði samstíga í atkvæðagreiðslu um úthlutun kjörbréfa nú á fimmtudag. Það er að Samfylkingin muni kjósa með uppkosningu í norð-vestur kjördæmi. Þá telur hún ekki rétt að kjósa eigi á landinu öllu og var ákvörðun Björns Leví nefndinni mikil vonbrigði.

„Ég geri svona ráð fyrir því já, að við verðum samstíga í þessu. En hver og einn þingmaður verður að sjálfsögðu að taka sína eigin ákvörðun,“ segir Þórunn spurð hvort einhugur sé í þingflokknum um afstöðu til málsins. 

Gömul leið en leiðin engu að síður

Hvort flokkadrættir muni vefjast fyrir þingmönnum við ákvörðunartöku segist Þórunn ekki vilja tala fyrir aðra flokka en það hafi verið rætt með skýrum hætti innan þingflokks Samfylkingar að allir fái tækifæri til þess að kynna sér öll gögn og taka í kjölfarið eigin ákvörðun byggða á sinni samvisku.

Hún bendir einnig á að málið sé þannig vaxið að þingmenn hafi það hlutverk að samþykkja eigin kjörbréf og bendir á að það sé „að minnsta kosti gömul leið“ til þess að gera þetta. Þá gaf hún í skyn að ljóst sé að sú leið sé ekki fullkominn en svo segi einfaldlega í núverandi stjórnarskrá að vinna skuli málið.

Kom nefndinni á óvart og olli vonbrigðum 

Þórunn segir að ákvörðun Björns Leví Gunnarssonar, þing- og nefndarmanns Pírata, að skrifa ekki undir greinargerðina hafi verið mikil vonbrigði og komið nefndinni á óvart. Nefndin hafi rætt það á fundi sínum í dag.

Hvað varðar „stjórnsýslulegar áhyggjur“ þingmannsins af formlegheitum í kringum störf nefndarinnar sem mbl.is greindi frá fyrr í dag segist Þórunn „ekki ætla tjá sig um skoðanir Björns“, en hún hafi „góða reynslu af starfi nefndarinnar.“

En nú segjast Píratar ætla að leggja það til að kosið verði upp á nýtt á landsvísu. Munt þú styðja það?

„Nú hef ég ekki séð tillögu Pírata en sé þetta rétt þá verðum við að horfa til þess að í fimm af sex kjördæmum landsins fór kosningin og framkvæmd hennar fram samkvæmt kosningalögum og ekkert sem bendir til þess að farið hafi verið á svig við lögin með þeim hætti sem var gert í NV-kjördæmi. Ég get því ekki ályktað sem svo að ógilda eigi kosningu í öllum kjördæmum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Hallmundur Kristinsson: Jaml
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert