Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði í lok ágúst á þessu ári lánað 140 milljarða dala – andvirði ríflega 20 þúsund milljarða króna – sem er þegar orðið meira en á nokkru heilu ári hingað til, samkvæmt samantekt Financial times.

Heimsfaraldurinn, innrás Rússlands í Úkraínu og ört hækkandi vaxtastig um allan heim hefur leikið margar þjóðir grátt. Mikil verðbólga og hærri vextir geta lagst þungt á skuldug þjóðríki ekki síður en heimili í gegn um stóraukinn vaxtakostnað, og að minnsta kosti fimm þeirra eru þegar komin í greiðsluþrot.

Útlánastaða sjóðsins í lok síðustu tveggja ára hafði þegar slegið met eftir erfiðleika tengda faraldrinum, en búist er við því að ekkert lát verði á ásókn í lánsfé frá sjóðnum á næstunni. Þvert á móti gætu áframhaldandi vaxtahækkanir að sögn sérfræðinga sem FT vísar til gert ástandið mun verra og knúið fram skarpa og djúpa niðursveiflu fari allt á versta veg.

Mörg fátækari lönd hafa lítinn sem engan aðgang að lánsfé gegn um alþjóðlega fjármálamarkaði og þurfa því að reiða sig á gjaldeyrissjóðinn að verulegu leyti, en sjóðir hans gætu farið að tæmast fari fram sem horfir.