Deildi þúsundum mynda af barnaníði

AFP

Þrír þeirra sem voru handteknir í tengslum við barnaníðshring á huldunetinu höfðu umsjón með rekstri efnisveitunnar. Sá fjórði er einn helsti notandi vefjarins en hann hefur birt myndefni tengt barnaníði í yfir 3.500 skipti frá því vefurinn fór í loftið árið 2019. Mestallt efnið á vefnum „Boystown“ tengist kynferðislegu ofbeldi gagnvart ungum drengjum. Greint var frá málinu í morgun.

Að sögn þýsku alríkislögreglunnar eru félagar á Boystown-vefnum yfir 400 þúsund talsins en vefurinn var hýstur á svokölluðu hulduneti (darknet). Þar gátu félagar átt í samskiptum hver við annan og skipst á myndum og myndskeiðum sem sýndu barnaníð. Að sögn lögreglu var sumt af því efni skelfilegt og sýndi hrottafengið kynferðisofbeldi gagnvart smábörnum.

Þrír mannanna voru handteknir í Þýskalandi en alls var farið í sjö húsleitir þar. Mennirnir eru á aldrinum 40-64 ára. Sá fjórði var handtekinn í Paragvæ að beiðni þýskra yfirvalda. Hann er Þjóðverji og verður framseldur til heimalandsins á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar dómara í Frankfurt. 

Höfuðstöðvar Europol.
Höfuðstöðvar Europol. AFP

Þrír menn, 40 ára, 49 og 58 ára, eru sakaðir um að hafa skipulagt vefsvæðið þar sem þeir buðu upp á tæknilega aðstoð og veittu notendum ráðleggingar um hvernig best væri að forðast að upp um þá kæmist. Elsti maðurinn er 64 ára gamall og búsettur í Hamborg. Það var hann sem setti inn gríðarlegt magn ofbeldismynda. 

Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, fagnar því að síðunni hafi verið lokað og segir lögreglu senda skýr skilaboð með aðgerðum sínum. Ef þú fremur brot gagnvart þeim sem minnst mega sín þá ertu hvergi hultur, segir Seehofer í yfirlýsingu. Níðingarnir verða dregnir fyrir dóm og allt gert til þess að verja börn fyrir slíkum viðbjóðslegum glæpum segir hann ennfremur.

Rannsókn þýsku lögreglunnar naut aðstoðar lögreglu í Hollandi, Svíþjóð, Kanada og Bandaríkjunum auk Europol. Við aðgerðirnar var slökkt á starfsemi Boystown og fleiri slíkra miðla á huldunetinu.

Dómsmálaráðherra sambandsríkisins Hesse, Eva Kühne-Hörmann, hrósar lögreglu fyrir aðgerðirnar og segir þær mikilvægan lið í baráttunni við kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Huldunetið er talsvert notað af glæpamönnum til viðskipta með fíkniefni, vopn og barnaníð. Árið 2019 voru fjórir karlar fundnir sekir fyrir dómi í Hesse fyrir að hafa sett á laggirnar og rekið barnaníðsvef á huldunetinu. Alls voru félagar þess vefsvæðis 110 þúsund talsins og var svæðið í rekstri í hálft ár áður en því var lokað í aðgerðum lögreglu í júní 2017.

Þeir voru fundnir sekur um vörslu og birtingu barnaníðs og fengu þeir allir dóma. Allt frá tæpu fjögurra ára fangelsi til tæplega tíu ára fangelsisdóms. 

Fyrir helgi var Christoph Metzelder, fyrr­ver­andi leikmaður þýska landsliðsins í knatt­spyrnu og Real Madrid, dæmdur í tíu mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir dreif­ingu á barnaklámi.

Varn­ar­maður­inn fyrr­ver­andi var hand­tek­inn í sept­em­ber 2019 þar sem tæp­lega 300 mynd­ir af barn­aníði fund­ust í síma hans. Réttarhöldin áttu að standa til 10. maí en aðeins tók einn dag að ljúka þeim þar sem Metzelder játaði að hafa dreift barnaníðinu í gegnum WhatsApp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert