Fótbolti

Segja Ron­aldo tæpan fyrir fyrsta leik Rangnick

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Cristiano Ronaldo gæti misst af leik Manchester United og Crystal Palace.
Cristiano Ronaldo gæti misst af leik Manchester United og Crystal Palace. Daniel Chesterton/Getty Images

Það gæti farið svo að Cristiano Ronaldo verði ekki í byrjunarliði Manchester United í fyrsta leik Ralf Rangnick með félagið er Crystal Palace mætir í heimsókn á Old Trafford.

Ástæðan er þó ekki að Rangnick vill ekki nota Portúgalann heldur er framherjinn að glíma við meiðsli.

Samkvæmt heimildum The Sun – sem reynast þó ekki alltaf áreiðanlegar – er Ronaldo tæpur fyrir leik morgundagsins. Ronaldo ku hafa meiðst á hné er hann fagnaði seinna marki sínu og sigurmarki Man United í 3-2 sigrinum á Arsenal í liðinni viku.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hlutverk Ronaldo hjá Rangnick þar sem Þjóðverjinn vill að lið sín spili af mikilli ákefð og pressi stíft. 

Hvort 35 ára gamall Ronaldo passi inn í þá hugmyndafræði á eftir að koma í ljós en Rangnick fór fögrum orðum um Ronaldo á sínum fyrsta blaðamannafundi sem þjálfari Manchester United.

Man Utd tekur á móti Crystal Palace á morgun, sunnudag. Heimamenn þurfa sigur ef þeir ætla að halda í vonina um að ná Meistaradeildarsæti að tímabilinu loknu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×