„Ég vil upplýsa um að fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur fylgst náið með útboði Icelandair Group og eftirlitið hefur kallað eftir gögnum eftir atvikum og er nú að kanna framkvæmd þess,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun. Bætti hann við að svo komnu máli væri ekki hægt að segja neitt frekar um könnunin annað en að hún sé komin af stað.

„Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að útboðið sem slíkt og framvinda þess gefi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag við ákvörðunartöku þegar kemur að einstökum fjárfestingum lífeyrissjóðanna,“ sagði Ásgeir enn fremur.

Bendir hann á að slíkt sé ekki nýtt af nálinni. Fjármálaeftirlitið hafi síðasta sumar haft áhyggjur af því að sjálfstæði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum Íslands væri ekki nægjanlega vel tryggt. Seðlabankinn sendi bréf þess efnis sem nú hefur verið ítrekað.

Skoða þarf allt ferlið upp á nýtt

„Staðan er þannig núna að stjórnir lífeyrissjóða eru skipaðar af hagsmunaaðilum sem eru að taka ákvarðanir um fjárfestingar, sem að mínu viti ættu að vera teknar annars staðar,“ sagði Ásgeir. Því sé hans skoðun að skoða þurfi allt ferlið upp á nýtt.

Þar minnir hann á að í lífskjarasamningunum var gert ráð fyrir því að lagaumgjörð í kringum lífeyrissjóðina yrði endurskoðuð.

Segir hann að velta megi fyrir sér hvort núverandi kerfi haldi. Í ljósi þeirra gífurlega fjármuna og hagsmuna sem um er að ræða sé ekki óeðlilegt að athuga hvort ekki þurfi að endurskoða þetta fyrirkomulagið.

„Það er eðlilegt að stjórnir ákvarði almenna fjárfestingastefnu og geti haft skoðanir á því hvað lífeyrissjóðirnir mega fjárfesta í. þegar kemur að einstökum fjárfestingakostum þá er ákveðin hætta á því að aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðsfélaga fái að ráða,“ sagði Ásgeir. Skoðanir bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfinga ættu fremur að koma fram með almennum hætti en ekki ákvörðun um einstaka fjárfestingakosti.